Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Norsk stjórnvöld örvuðu um of í faraldrinum

01.06.2022 - 10:51
Mynd: EPA / EPA
Á tímum pestarinnar var boðið upp á örvunarsprautur fyrir mannfólkið og örvunarpakka fyrir atvinnulífið. Örvunarsprauturnar þóttu góðar en í Noregi hallast ráðamenn nú að því að örvunarpakkarnir hafi verið of örvandi. Hagkerfið er farið á fyllerí, hagvöxtur óstöðvandi, vextir leika lausum hala og leitun að ráðum til að hemja ölvunina.

Fáar fréttir eru af smiti og COVID-19 veiran meira og minna í dvala. En tími uppgjörsins er að renna upp, eða svo er að skilja á stjórnmálamönnum. Það er uppgjörið við allar þær ráðstafanir sem gripið var til svo forða mætti efnahagskreppu vegna veirunnar. Víðtækum lokunum til að hefta smit gátu valdið atvinnuleysi, gjaldþrotum og kreppu. 

Norskum stjórnmálamönnum varð á í messunni segir Solberg

Veirunni var haldið í skefjum - en hvað með efnahaginn? Ekki vara bara boðið uppá örvunarsprautur gegn veirunni heldur einnig örvunarpakka fyrir atvinnulífið. Hverju björguðu þessir pakkar? 

Erna Solberg, fyrrverandi forsætisráðherra, hefur nú lýst því að sérstakar aðgerðir til að forða kreppu við olíuvinnslu fyrir um tveimur árum hafi í besta falli verið óþarfar. Hún segir nú við norska ríkisútvarpið NRK:

Við verðum bara að viðurkenna að norskum stjórnmálamönnum urðu á mistök, þetta var alltof mikil örvun.

Hún getur að vísu huggað sig við að hafa setið í minnihlutastjórn þar sem stjórnarandstaðan hafði meirihluta og bætti mjög í björgunarpakkann fyrir olíuvinnsluna. Þar á meðal álitlegur frádráttur á skatti. 

Olíugróðinn umfram spár vegna stríðs í Úkraínu

Núna hefur komið í ljós að líka þau fyrirtæki sem engan skatt höfðu borgað fengu fyrirframendurgreiðslu á skatti sem þau hugsanlega myndu borga síðar. Fleira var í þessum dúr. Núna er olíutunnan seld á um 120 dali og óvæntur gróði af olíuvinnslu talinn jafngilda 1000 milljörðum íslenskra króna á árinu. Það er gróði umfram spár og má rekja til innrásarinnar í Úkraínu. Allt leiðir þetta til að farið er að skoða í björgunarpakkana sem í boði voru fyrir tveimur árum. Einn var gefinn til að bjarga flugfélaginu Norwegian frá gjaldþroti. Norsk yfirvöld lögðu ekki fram fé til bjargar SAS en það gerðu Danir og Svíar og núna er SAS enn sem fyrr á barmi gjaldþrots vegna skulda og deilna við starfsfólk.

Hluti björgunarpakka í bónusa til yfirmanna

En Norwegian hefur náð flugi þótt félagið sé enn rekið með tapi. Eftir sem áður er spurt hvort nokkur nauðsyn hafi verið að bjarga félaginu til að halda uppi samkeppni. Flugfélög koma í flugfélaga stað og nú eru ný félög með flugvélar í ferðum um allan heim. Mikið af björgunarpakkanum fór í bónusa fyrir yfirmenn en félagið var fyrir veiru að sligast undan skuldum og tap á nærri hverri flugferð. Því var bara sparnaður í að láta flugflotann standa óhreyfðan á jörðu niðri og segja starfsfólki upp. Menn hafa því leyft sér að spyrja hvort veiran hafi bjargað flugfélaginu.

Þensla og verðbólga ekki hamin með örvunarpökkum

Fleiri björgunar- og örvunarpakkar hafa sætt gagnrýni. Þar á meðal var lagt út í auknar opinberar framkvæmdir, sérstaklega til að koma í veg fyrir atvinnuleysi iðnaðarfólks. Nú er talað um að hætta við sumar af þessum framkvæmdum. Þær þóttu illa skipulagðar og kostnaður hefur farið úr böndum. 

Svo er til dæmis um gamlan draum um að leggja járnbraut út á Fornebu, þar sem aðalflugvöllurinn var áður, gera við gamla Þjóðleikhúsið og grafa nýtt þjóðleikhús í jörðu og byggja nýtt hús yfir víkingaskipin fornu. Sennilega verður ekkert af þessu. Það er þensla á byggingamarkaði og leitun að fólki til að vinna verkin þótt nóg sé til af peningum. 

Vandi ríkisstjórnar Jónasar Gahr Störe er að drag úr þenslu koma böndum á verðbólguna sem er nú meiri en verið hefur um lagt árabil – eða 5,3 prósent. Og vextir fara hækkandi. Staðtölur benda til að hagvöxtur fari í 23 prósent á árinu. Það er meira en nokkru sinni síðan mælingar hófust.Vöxturinn veldur verðbólgu og verðbólga verður ekki hamin með meiri peningum. Þvert á móti  þarf að taka peninga úr umferð - þar á meðal peningana sem voru í björgunar- og örvunarpökkunum vegna veirunnar í hitteðfyrra.