Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Líf færist yfir Shanghai eftir 65 daga útgöngubann

A traveller wearing protective overall gets through a health code check point at the train station, Tuesday, May 31, 2022, in Shanghai. Shanghai authorities say they will take major steps Wednesday toward reopening China's largest city after a two-month COVID-19 lockdown that has set back the national economy and largely confined millions of people to their homes. (AP Photo/Ng Han Guan)
 Mynd: AP - RÚV
Flestum takmörkunum sem hafa verið í gildi vegna COVID-19 í Shanghai í Kína verður aflétt í dag, eftir um 65 daga útgöngubann.

Verkamenn sváfu í verksmiðjum

Þegar stjórnvöld kynntu takmarkanir vegna faraldursins fyrir rúmum tveimur mánuðum var lagt upp með að þær giltu í níu daga. Afléttingin er langþráð fyrir marga af þeim 25 milljónum sem búa í borginni og hafa þurft að gjörbreyta lifnaðarháttum sínum á sama tíma og flest önnur ríki hafa að mestu aflétt takmörkunum vegna heimsfaraldursins. Meðan á útgöngubanninu stóð urðu margir verkamenn að gista á vinnustöðum sínum til þess að halda hjólum efnahagslífsins gangandi.

Íbúar Shanghai verða þó ekki að fullu frjálsir ferða sinna strax. Um 650 þúsund manns sem búa á skilgreindum áhættusvæðum munu áfram þurfa að verja stærstum hluta dagsins inni á heimilum sínum. Verslanir í borginni verða opnaðar á nýjan leik en til dæmis kvikmyndahús, líkamsræktarstöðvar og söfn verða áfram lokuð.