Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þegar búið að selja flugsæti sem nemur sumaráætluninni

31.05.2022 - 12:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Það verða næg verkefni fyrir Airbus A319 þotu Niceair í sumar ef marka má viðbrögð við sölu fargjalda hingað til. Vélin og áhöfn hennar fengu góðar móttökur í fyrsta fluginu til Akureyrar í gær.

Heitir eftir bæjarfjallinu

Þota Niceair, sem nefnd er eftir Súlum bæjarfjalli Akureyringa, lenti á Akureyrarflugvelli á öðrum tímanum í gær. Fjöldi fólks var viðstaddur veglega móttökuathöfn í sól og blíðu þar sem forsetafrúin Eliza Reid sem gaf vélinni nafn.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Eliza Reid, forsetafrú, gaf vélinni nafnið Súlur.

„Stór dagur í samgöngusögu þjóðarinnar“

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Niceair, segir komu vélarinnar marka tímamót og gærdagurinn hafi verið gleðidagur. „Ekki bara fyrir mig, hluthafana eða aðstandendur félagsins sem hafa unnið þrotlaust starf undanfarna fjóra mánuði, þetta er einfaldlega stór dagur í samgöngusögu þjóðarinnar.“

Kaupmannahöfn, London, Tenerife og Manchester

Jómfrúarferð félagsins verður farin á fimmtudag til Kaupmannahafnar. Á föstudag verður fyrsta ferð til London og fyrsta ferðin til Tenerife á miðvikudag í næstu viku. Fyrst um sinn verða þetta helstu áfangastaðir Niceair. Flogið verður tvisvar í viku til Kaupmannahafnar og London og vikulega til Tenerife. Manchester á Englandi bætist síðan við í haust.

Mynd með færslu
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Niceair Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, við komu vélarinnar

Búið að selja sem nemur sumaráætluninni

Uppselt er í fyrstu ferð til Kaupmannahafnar og Þorvaldur Lúðvík segir farmiðasölu hafa gengið vel. „Við erum búin að selja svona ríflega það sem við teljum að sé sumaráætlunin okkar nú þegar. Það hefur gengið mjög vel og augljóslega verið þörf á þessu.“

Norðlenskir eigendur að mestu

Fjórir flugmenn og tíu flugþjónar hafa þegar verið ráðnir til starfa hjá Niceair. Félagið er í eigu fyrirtækja, einstaklinga og stofnana á Norðurlandi. Þar á meðal eru KEA, Ferðaskrifstofa Akureyrar, Norðurböð, Höldur, Kaldbakur, Norlandair og Bruggsmiðjan Kaldi.