Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Stal af byggingarsvæðum fyrir 43 milljónir króna

Hús í byggingu.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í dag mann í 18 mánaða fangelsi, skilorðsbundið til fimm ára, fyrir 28 þjófnaðarbrot frá september árið 2021 til marsmánaðar á þessu ári. Auk þeirra brota var maðurinn dæmdur fyrir nytjastuld á bifreið og brot gegn umferðarlögum, lyfjalögum og fíkniefnalöggjöf.

Þýfið hefur að mestu leyti skilað sér en verðmæti þess var ríflega 43 milljónir króna. Í langflestum tilfellum fór ákærði á byggingarsvæði, braust inn í nýbyggingar og stal verkfærum og öðrum byggingarvörum.

Stal klósettum og borvélum

Meðal þess sem ákærði stal voru höggborvélar, hjólsög, sverðsög, led-vinnuljós, kíttivél, hitablásarar, iðnaðarryksuga, steypuhræra, slípivél, hátalara og klósettum, svo eitthvað sé nefnt.

Í dóminum kemur fram að við ákvörðun refsingar hafi verið litið til þess að þjófnaðarbrotin voru sérstaklega stórfelld, ekki aðeins vegna mikils fjölda brota sem maðurinn framdi heldur einnig vegna verðmætis þess sem stolið var.

Sakaferill nær aftur til ársins 2009

Ákærði, sem er þrítugur að aldri, játaði sök greiðlega frá upphafi og segir í dóminum að tekið hafi verið tillit til þessa við ákvörðun refsingar. Sakaferill hans nær aftur til ársins 2009, þegar hann var dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað.

Í febrúar árið 2012 var hann svo dæmdur í 15 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir rán, þjófnað og önnur hegningarlagabrot. Árið 2014 var ákærði svo dæmdur í þriggja ára fangelsi, þar af tvö ár og níu mánuði skilorðsbundið, fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot sem framið var í júní 2012.

Ákærði er einnig sviptur ökurétti í 18 mánuði og sætir upptöku á 93,21 grammi af amfetamíni og 110 haldlögðum stykkjum af læknislyfjum. Þá þarf hann einnig að greiða rúma milljón króna í sakarkostnað.