Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Rjómablíða á Akureyri og íssala rýkur upp

31.05.2022 - 16:41
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Blíðskaparveður hefur verið á Norðurlandi og víðar undanfarna daga. Dagurinn í dag er engin undantekning og í miðbæ Akureyrar iðar allt af lífi.

Eltu sólina á Akureyri

„Þetta er búið að vera algjör draumur, við erum búin að vera hér í fjóra daga og það er búið að vera geggjað veður allan tímann,“ segir Silja Sigurðardóttir en hún og fjölskylda hennar flúðu rokið og rigninguna í Njarðvík og eltu sólina á Akureyri. Silja segir það fastan lið hjá fjölskyldunni á sólríkum dögum að fá sér ís til að kæla sig niður. Þá virðast fleiri halda sömu hefð því Linda Margrét Eyþórsdóttir, starfsmaður ísbúðar í bænum, segir íssöluna rjúka upp á dögum sem þessum.

Sjósund og ís á eftir

Víða á kreiki má einnig sjá grunnskólabörn að leik en svona sólríkir dagar eru gjarnan nýttir til útikennslu. Krakkarnir fagna því að fá að vera úti og segja það kærkomið eftir langan skólavetur. Við Hof mátti einnig sjá hóp af krökkum gera sér glaðan dag með því að stökkva ofan í sjó. Kuldinn í sjónum bítur greinilega ekkert á þessa krakka en eftir sjóstökkið hyggjast þau fara að fá sér ís.

Erlendir ferðamenn ekki viðbúnir svona blíðu

Við bryggju liggur stærðarinnar skemmtiferðaskip og eru því margir erlendir ferðamenn í bænum. Veðrið kom þó mörgum þeirra í opna skjöldu vegna þess hve illa það féll við þær hugmyndir sem þau höfðu um veðurfar landsins. „Við vorum búin að heyra að veðurfarið á Íslandi væri mjög breytilegt, en við bjuggumst við því mun kaldara og pökkuðum eftir því,“ segja argentínsk hjón sem voru í bænum. Þeim líkaði hlýindin þó mjög vel.
 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Galvaskir ungir menn kæla sig niður í sjónum við Hof