Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

167 þúsund eiga inneign hjá ríkissjóði

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Ríkisskattstjóri hefur lokið við álagningu opinberra gjalda fyrir árið 2022. Alls greiða 317.567 framteljendur 248 milljarða í tekju- og fjármagnstekjuskatt til ríkissjóðs og 275 milljarða í útsvar til sveitarfélaga, vegna tekna sinna á árinu 2021. Skattskyldar tekjur eru um 2000 milljarðar og 167 þúsund eiga inneign.

Í tilkynningu á vef fjármálaráðuneytisins kemur fram að barnabætur hækka og foreldrum sem eiga rétt á greiðslum fjölgar um tvö þúsund frá síðasta ári. Atvinnuleysisbætur drógust saman um 26% og námu um 48 milljörðum, greiðslur úr lífeyrissjóðum og frá Tryggingastofnun hækkuðu um 5,3%.

Framteljendum fjölgar um fimm þúsund á milli ára og framteljendur sem hafa engar tekjur, sem falla undir tekjuskatts- og útsvarsstofn, eru um 12 þúsund. Tæplega 29 þúsund fjölskyldur greiða fjármagnstekjuskatt að upphæð 38,6 milljarða króna.

Eignir heimila aukast

Heildareignir heimila landsmanna eru metnar á 8.491 milljarð og hafa aukist um 10,6% á milli ára. Fjölskyldum sem eiga fasteignir fjölgaði um 3.455. Nú eiga alls 111.621 fjölskyldur fasteign. Fjöldi fjölskyldna sem voru með skuldir umfram eignir standa nánast í stað, eru 30.202 við árslok 2021 og fækkaði um 231 á milli ára. Fasteignir voru 73,8% af heildareignum og verðmæti þeirra 6.263 milljarðar sem er 10,6% hækkun frá fyrra ári. 

Frádráttur vegna góðgerðamála

Skattskyldar tekjur framteljenda voru um 2005 milljarðar króna. Í þeirri tölu eru öll laun og ígildi launa, hlunnindi, lífeyrir frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóðum, atvinnuleysisbætur, styrkir og hvers kyns aðrar greiðslur til einstaklinga, að teknu tilliti til frádráttar. 

Rúmlega tuttugu þúsund einstaklingar nýtt þann möguleika að draga frá gjafir og framlög til góðgerðamála og skráðra almannaheillafélaga, alls að upphæð 416 milljónir króna. Þetta var í fyrst skipti sem slíkt var heimilt. Frádráttur vegna kaupa á hlutabréfum var samtals 348 milljónir sem er hækkun um 227 milljónir frá síðasta ári.

Barnabætur hækka

Greiðslur vegna barnabóta hækka um 9,5% eða sem nemur um 1,2 milljörðum á milli ára. Alls nema barnabætur um 13,7 milljörðum. Þær breytingar voru gerðar á barnabótum að neðri skerðingarmörk hækkuðu um 8% og efri skerðingarmörk um 12%. 

Foreldrum sem njóta barnabóta fjölgar um tæplega 2.000. Þá verður sérstakur barnabótaauki greiddur út 1. júlí, að upphæð 20 þúsund með hverju barni.

Vaxtabætur lækka

Vaxtabætur lækka um 13,1% á milli ára. Alls fá 13.535 framteljendur greiddar vaxtabætur og fækkar þeim um 1.485 á milli ára. Lækkun vaxtabóta nú eins og fyrri ár skýrist af betri eiginfjárstöðu heimila, auknum tekjum og lækkun vaxtagjalda á sama tíma og viðmiðunarfjárhæðir hafa haldist óbreyttar, segir á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

sigurdurk's picture
Sigurður Kaiser
Fréttastofa RÚV