Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Kalush seldi verðlaunagripinn til styrktar landvörnum

Meðlimir úkraínsku hljómsveitarinnar Kalush Orchestra, sigurvegara Eurovision 2022, seldu verðlaunagripinn til stuðnings landvarna í Úkraínu.
 Mynd: EPA

Kalush seldi verðlaunagripinn til styrktar landvörnum

30.05.2022 - 03:30

Höfundar

Úkraínska hljómsveitin Kalush Orchestra hefur selt verðlaunagripinn sem henni áskotnaðist fyrir sigur í Söngvakeppni evrópskra sjónvarsstöðva. Gripurinn var seldur á uppboði og andvirðið rennur til úkraínska hersins.

Í yfirlýsingu Kalush Orchestra segir að úkraínska fyrirtækið WhiteBit, sem höndlar með rafeyri, hafi greitt 900 þúsund bandaríkjadali fyrir verðlaunagripinn sem er í líki hljóðnema. Fjárhæðin er jafnvirði ríflega 116 milljóna íslenskra króna á gengi dagsins.

„Við þökkum WhiteBit kærlega fyrir. Fyrirtækið er nú réttmætur eigandi verðlaunagripsins okkar,“ sögðu liðsmenn sveitarinnar. Oleh Psiuk seldi líka einkennistákn sitt, bleika hattinn, á fjáröflunartónleikum í Berlín fyrr í dag, sunnudag. Hver einasta króna rennur til landvarna í Úkraínu. 

Kalush Orchestra sigraði í söngvakeppninni með lagið Stefania laugardaginn 15. maí og fékk 631 stig. Sam Ryder, keppandi Bretlands sem flutti lagið Spaceman, hlaut 466 stig í öðru sæti.

Sigurinn var túlkaður sem samstaða Evrópuþjóða gegn innrás Rússa í Úkraínu. Rússum var bönnuð þátttaka í keppninni vegna innrásarinnar í Úkraínu. Hvítrússar, sem stutt hafa innrásina, voru ekki heldur með. 

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Vill halda Eurovision í Mariupol á næsta ári

Menningarefni

Úkraína sigurvegari Eurovision