Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Minnst 34 látin í ofsaregni, flóðum og aurskriðum

29.05.2022 - 00:49
epaselect epa09983087 Firefighters work in the area of a landslide due to heavy rains in the Corrego do Jenipapo neighborhood in Recife, Brazil, 28 May 2022. At least 28 people died after a landslide in Brazil, an official source report.  EPA-EFE/GENIVAL PAPARAZZI
Slökkviliðsmenn leita í aur og húsarústum nærri Recife, héraðshöfuðborg Pernambuco-ríkis í Norðaustur-Brasilíu. Minnst 19 fórust í aurskriðu sem þar varð en alls hafa 34 fundist látin í Pernambuco eftir hamfarir síðustu daga. Mynd: EPA-EFE - EFE
Minnst 34 hafa látið lífið í miklum rigningum í Brasilíu síðustu daga, þar af 29 í gær, samkvæmt upplýsingum yfirvalda. Ofsarigning hefur dunið á Pernambucoríki í Norðaustur-Brasilíu frá því á miðvikudag.

Í tilkynningu frá almannavörnum segir að minnst 34 hafi týnt lífinu í flóðum og skriðum sem rigningarnar hafa valdið. Mannskæðasti einstaki atburðurinn til þessa var aurskriða sem féll nærri héraðshöfuðborginni Recife, þar sem nítján létu lífi, en sex fórust í sveitarfélaginu Camaragibe og fjögur til viðbótar annars staðar í ríkinu í gær.

Fyrr í vikunni höfðu fimm dáið í flóðum og skriðum í ríkinu. Nokkur þúsund manns hafa neyðst til að yfirgefa heimili sín vegna hamfaranna.

Úrkoman frá föstudagskvöldi fram á laugardagsmorgun mældist 236 millimetrar þar sem mest var, sem er jafngildi rúmlega 70 prósenta meðalúrkomu í maímánuði í Pernambucoríki.

Brasilíska veðurstofan hefur gefið út rauða veðurviðvörun vegna vatnsveðurs, flóða- og skriðuhættu og gildir hún til miðnættis á sunnudag.