Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Verði að vera raunveruleg ógn til að regluverk víki

28.05.2022 - 12:42
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Sveitarstjórinn í Vogum segir bæjaryfirvöld ekki setja sig upp á móti því að framkvæmdum við að tryggja raforkuöryggi á svæðinu verði hraðað, eins og dómsmálaráðherra boðaði í gær. Framkvæmdastjóri Landverndar segir margt af því sem ráðherra nefndi, eins og Suðurnesjalína, ekki brýnt öryggismál sem kalli á að regluverk víki til hliðar.

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra sagði í fréttum RÚV í gær aðyfirstandandi jarðskjálftahrinu á Reykjanesskaganum þyrfti að taka alvarlega. Undanfarnar vikur hefur land risið við Þorbjörn og ljóst að Svartsengi gæti verið í hættu ef kæmi til eldsumbrota, þar er HS-orka. Í ljósi þess segir Jón brýnt setja innviðauppbyggingu í forgang. Til þess þyrfti mögulega að ýta regluverki til hliðar, til dæmis um umhverfismat og útboð - til að hægt sé að koma upp varmaskiptakerfi annars staðar og þá sagði Jón að það þyrfti að hraða uppbyggingu Suðurnesjalínu tvö.

Saga Suðurnesjalínu spannar áratug en línan á að auka afhendingaröryggi og flutningsgetu raforku til og frá Suðurnesjum. Sveitarfélagið Vogar er víðfeðmasta sveitarfélagið á Suðurnesjum en bæjarstjórnin þar hafnaði í fyrra framkvæmdaleyfi Landsnets fyrir Suðurnesjalínu tvö. Sem Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi síðan úr gildi.

Meirihlutaviðræður í Vogum standa yfir eftir sveitarstjórnarkosningarnar. Ásgeir Eiríksson, fráfarandi bæjarstjóri segir umsókn Landsnets sé í sínum eðlilega farvegi innan sveitarfélagsins. „Við höfum lagt til að það verði valinn annar valkostur samhliða gömlu línunni að það verði lagður jarðstrengur meðfram Reykjanesbraut. Landsnet lagði áherslu á einn valkost, og við á hinn, við erum bara að fjalla um málið út frá því.“

Sveitarfélagið fari eftir reglum sem gilda hverju sinni

Ásgeir segir að sveitarfélagið sé ekki á móti því að framkvæmdum við að tryggja raforkuöryggi verði hraðað. „Við vildum manna helst sjá að þessi framkvæmd gæti bara, þetta afhendingaröryggi gæti verið tryggt svo fljótt og verða má. Svo við setjum okkur að sjálfsögðu ekki upp á móti því,“ segir hann.

„Varðandi að víkja regluverki til hliðar þá er það á valdi stjórnvalda eða Alþingis og þess vegna ráðuneytisins og stjórnarráðsins að gera það. Sveitarstjórn getur ekkert annað en farið eftir þeim reglum sem gilda hverju sinni.“

Suðurnesjalína tvö ekki brýnt öryggismál

Í lögum er undanþáguákvæði sem heimilar brýnar framkvæmdir ef um almannahagsmuni er að ræða. Auður Önnu Magnúsdóttir er framkvæmdastjóri Landverndar. „Það verður hins vegar að vera raunverulegt að um ógn við öryggi almennings sé að ræða og mörg af þessum dæmum sem Jón nefnir þarna fellur alls ekkert undir það eins og Suðurnesjalína tvö. Ástæða fyrir því að hún hefur ekki orðið er þrjóska Landsnets við að leggja línuna í jörð í vegöxl Reykjanesbrautar.“

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV