Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ný atlaga að Kyiv gæti verið yfirvofandi

epa09980039 A view of destroyed apartment blocks in Borodyanka city, near Kyiv (Kiev), Ukraine, 27 May 2022. On 24 February, Russian troops invaded Ukrainian territory starting a conflict that has provoked destruction and a humanitarian crisis. According to the United Nations High Commissioner for Refugees (UNHCR), more than 6.6 million refugees have fled Ukraine, and a further 7.7 million people have been displaced internally within Ukraine since.  EPA-EFE/OLEG PETRASYUK
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ráðamenn í Kreml eru sagðir ráðgera nýja atlögu gegn Kyiv, höfuðborg Úkraínu, þrátt fyrir að sú fyrsta hafi runnið algerlega út í sandinn. Háttsettir menn innan stjórnarflokks Rússlands eru sigurvissir.

Ónefndur heimildarmaður kveðst þess fullviss að Úkraínumenn muni að lokum láta í minni pokann og býst við að innrásinni ljúki fyrir haustið. Norska ríkisútvarpið fjallar um þetta og vitnar til óháða vefmiðilsins Meduza.

„Við mölum þá að lokum,“ segir heimildarmaðurinn ónefndi. Rússar eru sagðir hafa lagt upp með lágmarks og hámarksmarkmið í því sem þeir kalla sérstaka hernaðaraðgerð í Úkraínu.

Hámarkið væri að hertaka höfuðborgina en lágmarkið að ná fullum yfirráðum í Donbas austanvert í landinu. Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti biðlar enn til vesturlanda um hjálp vegna útrýmingarstefnu Rússa í Donbas.

Leiðtogar Sameinaðs Rússlands, stjórnarflokks Vladímírs Pútíns, hafa fyllst bjartsýni um fullnaðarsigur fyrir árslok samkvæmt heimildum The Guardian. Meduza greinir frá því að Úkraínumenn ráði nú um fimm prósent af Luhansk og innan við helmingi Donetsk.

Héraðsstjórinn í Luhansk segir að úkraínskar hersveitir geti neyðst til að hörfa til að komast hjá því að falla í óvina hendur. Kremlverjar eru vantrúaðir á að vesturlönd geti til lengdar haldið áfram gríðarlegum efnahags- og hernaðarstuðningi sínum við Úkraínu.

Heimildarmaður segir að ríkin þurfi sjálf á vopnaframleiðslu og fjármunum að halda. Jafnframt neyðist ríkin til að semja um kaup á jarðgasi og olíu fyrir haustið áður en kólna tekur að nýju.

Varnarmálaráðherrar ríkja Atlantshafsbandalagsins hafa boðað til fundar um málefni Úkraínu dagana 15. til 16. júní næstkomandi.