Jarðskjálfti fjórir komma fjórir að stærð mældist í Bárðarbungu laust eftir klukkan átta í morgun. Nokkrir eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið.
„Það er enginn órói, bara stakir skjálftar,“ segir Bjarki Friis, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands. „Þetta hefur verið viðvarandi ástand í Bárðarbungu frá gosi. Þetta lítur ekki út fyrir að vera skjálftahrina, bara nokkrir skjálftar.“
Stærsti skjálftinn á árinu í Bárðarbungu varð 22. febrúar. Sá var 4,7 að stærð.