Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Mörgu ósvarað eftir fjöldamorðið í Texas

27.05.2022 - 17:46
FILE - Houston Police Chief Art Acevedo, center, and Houston Mayor Sylvester Turner, far right, join demonstrators during a "March for Our Lives" protest for gun legislation and school safety Saturday, March 24, 2018, in Houston.  The National Rifle Association is going ahead with its annual meeting in Houston just days after the shooting massacre at a Texas elementary school that left 19 children and 2 teachers dead. With protests planned outside, former President Donald Trump and other leading GOP figures, including South Dakota Gov. Kristi Noem, will address attendees. (AP Photo/David J. Phillip, File)
Art Acevedo, fyrrverandi lögreglustjóri. Mynd: AP
Fyrrverandi lögreglustjóri í Austin og Houston í Texas gagnrýnir lögreglu í bænum Uvalde fyrir seinagang við að stöðva skotárás ungs fjöldamorðingja á börn og kennara í grunnskóla í bænum á þriðjudag.

Í ljós er komið að hálf önnur klukkustund leið frá því að Salvador Ramos, átján ára, kom í Robb grunnskólann í Uvalde og skaut þar nítján börn og tvo kennara til bana, þar til lögreglumenn réðust inn og felldu hann. Art Acevedo, fyrrverandi lögreglustjóri í Houston og Austin í Texas og Miami í Flórída furðar sig á seinaganginum í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC.

Acevedo segir að verkferlarnir eigi að vera á hreinu, hvort sem einn lögreglumaður eða hundrað lenda í aðstæðum sem þessum. Reyna eigi að gera árásarmanninn eða mennina óvíga sem allra fyrst. Lögreglan í Uvalde þurfi að svara mörgum erfiðum spurningum vegna þessarar slælegu frammistöðu.

Lögreglustjórinn fyrrverandi segir að mörgu að hyggja eftir voðaverkin í Uvalde. Hann spyr til dæmis hvernig það megi gerast að átján ára unglingar hafi lögum samkvæmt aðgang að skotvopnum sem nota megi í stríði.

„Hversu margir þurfa að deyja,“ spyr Art Acevedo, „áður en öldungadeild Bandaríkjaþings  breytir lögum um skotvopnaeign?“