Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Íslenska óperan greiðir Þóru rúmar 600 þúsund krónur

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Landsréttur dæmdi í dag Íslensku óperuna til að greiða Þóru Einarsdóttur 618.168 krónur vegna eftirstöðva æfingalauna, launatengdra gjalda og yfirvinnu. Þá var óperunni einnig gert að greiða 2,8 milljónir króna í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.

Þóra hafði gert samning við Íslensku óperuna um hlutverk Súsönnu í uppfærslu á óperunni Brúðkaup Fígarós árið 2019. Deilt var um það hvort Íslenska óperan hefði efnt að fullu skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum.

Í dómi Landsréttar var fallist á það að með Þóru að gildissvið kjarasamnings Félags íslenskra hljómlistamanna og Félags íslenskra leikara um kaup og kjör söngvara hefði náð til samnings hennar við Íslensku óperuna, þótt þar hefði verið um greiðslu verklauna.

Landsréttur taldi réttarsambandið milli Þóru og Íslensku óperunnar hefði, um annað en greiðslu verklauna, haft einkenni hefðbundins vinnuréttarsambands. Ákvæði samnings sem þau gerðu um lakari kjör en kveðið var á um í kjarasamningnum voru því ógild.

Með þessu snéri Landsréttur niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur við, þar sem fallist var á rök Óperunnar um að fara einungis eftir verktakasamningum við óperusöngvara.

Lands­réttur féllst á allar kröfur Þóru nema eina, sem varðar dráttar­vexti.

rebekkali's picture
Rebekka Líf Ingadóttir
Fréttastofa RÚV