Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Segir Pútín halda ríkjum heims í gíslingu hungursneyðar

26.05.2022 - 14:46
epa09626856 British Secretary of State for Foreign, Commonwealth and Development Affairs and Minister for Women and Equalities, Liz Truss arrives for a cabinet meeting at 10 Downing Street in London, Britain, 07 December 2021.  EPA-EFE/VICKIE FLORES
 Mynd: EPA - RÚV
Liz Truss, utanríkisráðherra Bretlands, segir Vladimír Pútín Rússlandsforseta halda heimsbyggðinni og sérstaklega fátækustu ríkjum heims í gíslingu með því að koma í veg fyrir að hægt sé að koma úkraínsku korni úr landi.

„Pútín er að vígvæða hungursneyð í fátækustu ríkjum heims. Við getum ekki látið þetta gerast,“ sagði Truss á fréttamannafundi í Bosníu í dag. 

Úkraína er á meðal mestu kornútflutningsríkja heims. Stöðvist kornútflutningur þaðan veldur það hvorutveggja í senn korneklu og verðhækkunum á því korni sem þó býðst. Breytist ekkert er varað við yfirvofandi matarskorti og jafnvel hungursneyð á stórum svæðum í heiminum. Truss segir bresk stjórnvöld gera allt til þess að koma flutningakeðjunni aftur af stað frá Úkraínu. 

„Við og okkar bandalagsríki ætlum að gera allt sem við getum til þess að koma korni frá Úkraínu og til dreifingar um heiminn. Við verðum á sama tíma að tryggja það að Pútín bíði ósigurs í Úkraínu og þess vegna getum við ekki aflétt viðskiptaþvingunum á Rússa, sem gætu gert Pútín enn sterkari,“ sagði Truss.

Rússnesk varnarmálayfirvöld heita því að heimila frjálsa för erlendra skipa um örugga siglingaleið til og frá úkraínskum höfnum við Svartahaf. Mikhail Mizintsev, háttsettur embættismaður í rússneska varnarmálaráðuneytinu segir 70 flutningaskip frá 16 ríkjum liggja við stjóra og bryggju í sex úkraínskum höfnum.