Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Lögðu 150 lík í fjöldagröf í Luhansk

26.05.2022 - 05:39
Police cars are seen amid debris at a police patrol department building that was heavily damaged after an airstrike by Russian forces in Lysychansk, Luhansk region, Ukraine, Friday, May 13, 2022. (AP Photo/Leo Correa)
Lögreglubílar undir hrundum húsveggjum eftir loftárás Rússa á borgina Lysitsjansk í Luhansk. Mynd: AP
Lögregla lagði á dögunum minnst 150 lík í fjöldagröf nærri borginni Lysitsjansk í Luhansk-héraði í Austur-Úkraínu. Borgin er á yfirráðasvæði Úkraínumanna. Héraðsstjórinn Serhyi Haidai greinir frá þessu á samfélagsmiðlinum Telegram og heitir því að hin látnu muni fá sómasamlega útför að stríðinu loknu.

Þá segir hann að hin borgaralega lögregla í héraðinu neyðist til að gegna fleiri hlutverkum á þessum hættulegu tímum en í venjulegu árferði, og útfararþjónusta sé eitt þeirra. Haidai segir hin látnu hvort tveggja fólk sem látist hefur af náttúrulegum orsökum og fórnarlömb loft- og sprengjuárása rússneska innrásarhersins.

Á myndskeiði sem birt var mátti sjá lík í hvítum pokum, merkt með nafnspjöldum, lögð til hinstu hvílu í stórri gryfju, segir í frétt norsku fréttastofunnar NTB.