Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Getur valdið varanlegum skaða og leitt af sér andlát“

26.05.2022 - 19:00
Mynd: Fréttir / Rúv
Gelt er að hinsegin unglingum nánast daglega og þau þannig svipt mennskunni, segja forsvarskonur Samtakanna '78. Þær hafa miklar áhyggjur af því hve algengt það er orðið að hinsegin hópar verði fyrir aðkasti.

„Þú getur verið smitandi“

Hópur hinsegin unglinga sagði í Kastljósi í gær frá grófri áreitni sem þau verða fyrir. Þau hafa verið elt af stórum hópum, grýtt og í verstu tilfellum hvött til að skaða sig eða svipta sig lífi. Þá er gelt að þeim nánast daglega, sem rekja má til samfélagsmiðilsins Tiktok.

Hrefna Þórarinsdóttir er forstöðukona Hinsegin félagsmiðstöðvar Samtakanna '78 og Tjarnarinnar.  „Þetta er virkilega ljótt. Þetta er svona: ég ætla að gelta á þig til að bægja frá mér hinseginleikanum eða verja mig fyrir þér því þú getur verið smitandi og ég vil ekki að það sem að fylgi þér komi við mig eða minn vinahóp. Ég hef nátturulega alltaf áhyggjur af börnunum mínum, en þetta sérstaklega veldur mér mjög miklum áhyggjum, að þetta sé orðið svona algengt.“

Tótla I. Sæmundsdóttir, fræðslustýra Samtakanna '78, tekur í sama streng. „Þetta er náttúrulega bara niðurlægjandi. Það er einhvern veginn verið að segja að þau séu minna fólk eða minni manneskjur og einhvern veginn verið að reyna að fjarlægja sig frá þeim. 

Hrefna segist alltaf hafa áhyggjur af hinsegin börnum og unglingum. „En þetta sérstaklega veldur mér mjög miklum áhyggjum, að þetta sé orðið jafn algengt og þetta er.“ 

Þær segja að fordómar hafi alltaf verið til staðar en áreitnin sé nú meira áberandi og minna falin. 

„Með tilkomu TikTok og Instagram og alls þessa, þetta hefur svolítið leynst þar. Nú finnst þetta orðið meira út á við og í umhverfinu hja krökkunum, í skólunum og félagsmiðstöðvum og verslunarmiðstöðvum og bara hvar sem er.“

Svara þurfi kallinu og bæta þjónustuna

Ungmennin sem stigu fram í Kastljósi hafa sótt mikinn stuðning í Hinsegin félagsmiðstöðina og foreldrar þeirra segja félagsmiðstöðina hafa verið þeim lífsnauðsynlega. Félagsmiðstöðin er ein sinnar tegundar.  Þangað mæta yfir hundrað unglingar þegar opið er, en það er einungis einu sinni í viku. Þjónustunni er haldið uppi af sjálfboðaliðum og einum starfsmanni í hlutastarfi.  

Félagsmiðstöðin hefur verið tilraunaverkefni hjá Reykjavíkurborg síðan 2016 og er fjármögnuð með tímabundnum samningum frá borginni, ólíkt öðrum félagsmiðstöðvum. Tótla og Hrefna segja nauðsynlegt að bæta þjónustu við þennan hóp og auka fræðslu.

„Það er hægt að fá skólana með okkur i lið, og foreldrana með okkur í lið, auka fræðslu og auka örugg rými fyrir unglingana,“ segir Tótla. 

Hrefna tekur undir það.  „Fyrst og fremst eru þetta foreldrar sem þurfa að koma með okkur í lið og fræða börnin sín um hvað svona öráreitni getur verið særandi fyrir einstaklinga. Þeir þurfa að afla sér upplýsinga um hvað sé hægt að gera og styðja hinsegin börnin sín í þvi að taka á móti svona áreitni. Svo vil ég að foreldrar séu meira styðjandi við börnin sín sama hvort þau séu hinsegin eða ekki.“

Áreitni geti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. „Við heyrum um sjálfskaða og sjálfsvíg og annað sem á rætur sínar að rekja í áreitni,  og það er kannski versta tilfellið, en það er vissulega það sem við höfum áhyggjur af hverju sinni að þetta getur valdið varanlegum skaða og geti leitt af sér hreinlega andlát. “

Hjálparsími Rauða krossins: 1717
Hjálparsími Píeta samtakanna: 552-2218
Hinsegin Félagsmiðstöðin á Instagram: hinseginfelagsmidstods78
Samtökin '78: 552-7878

 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV