Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Átti ekki von á að lífsbjörg sonarins yrði niðurgreidd

Sjúkratryggingar Íslands hafa samþykkt að niðurgreiða milljónakostnað við geðræna meðferð þrettán ára drengs í Hollandi. Móðir drengsins vonar að þetta ryðji brautina fyrir aðra í sömu stöðu.

Þrettán ára sonur Hörpu Henrysdóttur hefur glímt við alvarlegan geðrænan vanda síðustu árin. Í nóvember 2020 lét hann fyrst í ljós að hann glímdi við sjálfsvígshugsanir. 

„Upp úr því fer hann að skaða sig mikið og ýmislegt svona og fer að líða verr og verr. Í febrúar 2021 gerir hann fyrst alvarlega sjálfsvígstilraun og svo koma þær í röðum bara eftir það,“ segir Harpa. 

Fjölskyldan reyndi að nýta sér hin ýmsu úrræði, en biðin var löng eftir meðferð á barna- og unglingageðdeild Landspítalans og drengurinn í lífshættu á meðan. 

Harpa segir fjölskylduna sífellt hafa verið á nálum. 

„Það eina sem við gátum gert var bara að passa hann. Hann mátti ekki vera einn og við þurftum alltaf að sjá til þess að einhver væri að passa hann.“

Finna lífsnauðsynlegt úrræði í Hollandi

Við síðustu sjálfsvígstilraun í janúar á þessu ári var enn um tíu mánaða bið eftir meðferð á BUGL. Þá ákvað fjölskyldan að leita út fyrir landsteinana. Drengurinn fór út til Hollands í apríl í tíu vikna yfirgripsmikla meðferð. Foreldrarnir hittu hann í byrjun maí, um miðbik meðferðarinnar.

„Það var alveg yndislegt að sjá hvað það var þá strax eftir fimm vikur að sjá mun á honum.“ 

Gerðu sér ekki vonir um niðurgreiðslu frá SÍ

Kostnaðurinn við meðferðina er hátt í ellefu milljónir. Með stuðning frá Geðhjálp sótti fjölskyldan eftir niðurgreiðslu frá Sjúkratryggingum á grundvelli of langs biðtíma hér á landi. Ekki eru fordæmi fyrir því að Sjúkratryggingar greiði niður meðferð vegna geðræns vanda og Harpa því hóflega bjartsýn. 

„Svo mér til ótrúlega óvæntrar gleði þá var umsóknin bara samþykkt og Sjúkratryggingar samþykkja að greiða fyrir þessa meðferð, sem kostar 65 þúsund evrur og ferðakostnað. Bæði fyrir hann og fylgdarmann.“ 

Hún segist vona að þessi niðurstaða Sjúkratrygginga verði ekki einsdæmi. 

„Það sem ég vona er að þetta ryðji brautina fyrir aðra í þessari stöðu, því við erum ekkert ein. Og við viljum ekki að þetta sé eitthvað svona one-off lausn fyrir okkar barn. Ef að íslenska heilbrigðiskerfið getur ekki boðið upp á viðeigandi þjónustu þá eigum við auðvitað að sækja hana þangað sem hún er.“