Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Virknin svipuð og síðustu sólarhringa

Mynd með færslu
Horft til suðurs í átt að Svartsengi og fjallinu Þorbirni á Reykjanesskaga, sem hér byrgir sýn til Grindavíkur Mynd: RÚV - Kristján Þór Ingvarsso - RÚV
Yfir 350 jarðskjálftar hafa mælst frá miðnætti, allir undir þremur að stærð og langflestir á Reykjanesskaga. Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir virknina vera svipaða og síðustu daga.

„Það er í raun og veru óbreytt staða frá síðustu dögum og vikum. Við sjáum út frá GPS gögnum að þenslan heldur áfram á svipuðum hraða og jarðskjálftavirknin heldur áfram. Þetta kemur í svona hollum, það var svona smá virkni rétt fyrir klukkan níu í morgun,“ segir Elísabet í samtali við fréttastofu.

Stærsti skjálftinn síðasta sólarhringinn var 2,9 að stærð, við Þorbjörn um níuleytið í morgun. Elísabet segir engar tilkynningar hafa borist um að skjálftar hafi fundist í byggð.

„Þetta er bara mjög svipuð virkni og síðustu daga í raun og veru. Það er ekki búið að draga úr en það er heldur ekki búið að gefa mikið í. Þannig að þetta er bara svipuð virkni og síðustu sólarhringa.“