Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Það er okkar val að þetta haldi áfram“

25.05.2022 - 08:24
Mynd: EPA / EPA
Öldungadeildarþingmaðurinn Chris Murphy flutti tilfinningaþrungna ræðu á bandaríkaþingi í gærkvöld vegna skotárásarinnar í Texas. Þingmaðurinn grátbað kollega sína um að komast að einhvers konar samkomulagi svo mögulegt væri að takmarka byssueign eða möguleika fólks að komast yfir vopn, svo fækka megi skotárásum í skólum.

Átján ára piltur myrti minnst nítján börn og tvo kennara þegar hann réðst til atlögu í grunnskóla fyrir yngri bekki í smábænum Uvalde í Texas í gær, vopnaður skammbyssu og riffli. Árásin á Robb-grunnskólann, þar sem nemendur eru á aldursbilinu 5 - 11 ára, er áttunda fjöldamorðið sem framið er í Bandaríkjunum á þessu ári og það sjöunda mannskæðasta sem þar hefur verið framið í rúm 70 ár. Haft er eftir lögreglu að morðinginn hafi keypt sér tvo árásarriffla í nærliggjandi verslun á átján ára afmæli sínu.

Murphy, sem er þingmaður demókrata í Connecticut, sagði nauðsynlegt að grípa til aðgerða til að fækka skotárásum. Þingmenn myndu ekki leysa þennan vanda en gætu búið svo um hnútana með lagasetningum að skotárásum á borð við þessa myndi fækka til muna. „Þetta er ekki óumflýjanlegt. Þessi börn voru ekki óheppin. Þetta gerist bara hér. Hvergi annars staðar. Hvergi annars staðar fara börn í skólann og hugsa að þau gætu orðið fyrir byssuskoti þann dag. Hvergi annars staðar verða foreldrar að tala við börnin sín, eins og ég þurfti að gera, og skýra það hvers vegna þau voru læst inni á baðherbergi og sagt að hafa hljóð í fimm mínútur því vondi maðurinn gæti komið inn í húsið. Þetta gerist hvergi annars staðar nema hér í Bandaríkjunum. Og þetta er val. Það er okkar val að þetta haldi áfram. Hvað erum við að gera?,“ sagði Murphy í þinginu í gær. 

Steve Kerr, þjálfari körfuboltaliðsins Golden State Warriors, en lið hans lék gegn Dallas í Texas í nótt. Hann sagðist sleginn vegna tíðinda af árásinni og spyurði eins og Murphy, hvað þyrfti til þess að þingmenn gripu til aðgerða.