Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Svo miklar drykkjulýsingar að svífur nánast á mann"

25.05.2022 - 17:38
Mynd: EPA-EFE / EPA
Nafnið Sue Gray hefur verið viðkvæðið í breskum fréttum undanfarna mánuði. Gray er breskur embættismaður sem fáir vissu af þar til henni var fengið það hlutverk að kanna veislustand og hugsanleg brot á Covid reglum á skrifstofu forsætisráðherra í Downing stræti. Í dag kom margboðuð skýrsla Gray út. Við báðum Sigrúnu Davíðsdóttur að segja okkur frá niðurstöðunum og viðbrögðunum. En heyrum fyrst í Boris Johnson forsætisráðherra þegar hann ávarpaði þingið í dag. 

Sigrún, það hljómar eins og einhverjir trúi forsætisráðherra ekki alveg. Hvað var hann að segja þarna? 

„Liður í þessu máli um brot á Covid reglum í kringum forsætisráðherra er að hann hefur margsagt og staglast á að það hafi engar reglur verið brotnar. Nú er hins vegar búið að sekta forsætisráðherra fyrir eitt brot, gerðist fyrir nokkrum vikum. Það sem hann var að segja þingheimi þarna í dag er að þegar hann sagði áður í þinginu í fyllstu einlægni að öllum reglum hefði verið fylgt, engar reglur verið brotnar, þá taldi hann það alveg satt."

Víkjum að skýrslunni margumtöluðu – hverjar eru helstu niðurstöðurnar? 

„Skýrslan er alls 60 bls. en textinn sjálfur er aðeins 37 síður, síðan birtar myndir. Textinn er á embættismannamáli, talað um að ýmislegt ,,hefði ekki átt að leyfa,“ ,,hefði ekki átt að líðast,“ í stað þess að það sé þá gengið eftir hver leyfði þetta eiginlega. Það er þarna úttekt á 15 samkomum frá maí 2020 fram í apríl 2021. Svo miklar drykkjulýsingar að það svífur nánast á mann af lestrinum. Forsætisráðherra var viðstaddur flestar af þessum samkomum en ekki þegar mesta drykkjan stóð yfir."

Hvað segir þetta um vinnuumhverfið á skrifstofu forsætisráðherra? 

„Klárlega að það er drukkið meira þarna en víðast myndi líðast til dæmis í atvinnulífinu. Þeir sem þekkja til segja þetta ekki hafa tíðkast áður undir fyrri forsætisráðherrum, Johnson hafi skemmtanavætt skrifstofuna. Það var líka sjónvarpsþáttur í vikunni þar sem var rætt við þrjá ónafngreinda starfsmenn í Downing stræti sem sögðu enn frekar frá þessu partístandi, iðulega flöskur, matarafgangar og drasl þegar fólk mætir til vinnu, frekar óvirðulegt. Líka textaskilaboð embættismanna sem tala um að þeir hafi sloppið við athygli, starfsfólk eigi að passa að láta ekki sjá sig með flöskur í nágrenni myndavéla. Sýnir ekki mikinn aga."

Forsætisráðherra sagðist í dag axla fulla ábyrgð, hvernig kemur það fram? 

„Það eru einmitt margir sem spyrja þeirrar spurningar. Forsætisráðherra talar um að hann sé ekki að afsaka sjálfan sig, hann beri fulla ábyrgð, hafi þegar gert breytingar en það er ekki að sjá að neinn beri ábyrgð á þessu. Hann segist í áfalli yfir þessum partílýsingum en hafi barasta alls ekki vitað af þessu. Eins og Keir Starmer leiðtogi Verkamannaflokksins hnykkti á í dag þá er búið að sekta forsætisráðherra fyrir lögbrot, fyrir brot á Covid reglum. Stjórnarþingmenn þyrftu að losa sig við leiðtoga sinn. Það gengi ekki að setja lög og brjóta þau."

Lögreglurannsókn á lögbrotum í Downing stræti er lokið og nú þessi skýrsla. Er enn einhverjum spurningum ósvarað? 

„Sadiq Khan borgarstjóri hefur skrifað bréf til höfuðborgarlögreglunni, sem sá um rannsóknina, og biður um útskýringar á af hverju þeir sem fengu sekt virðast aðeins hafa fengið eina sekt þó þeir hafi verið viðstaddir margar samkomur, sem eru taldar lögbrot því aðrir þar voru sektar. Forsætisráðherra er einn þeirra, var aðeins sektaður fyrir eina samkomu en var á fleirum. Þess er líka spurt í dag af hverju hvorki Sue Gray né lögreglan hafi athugað meint lögbrot á samkomum í einkaíbúð forsætisráðherra svo já, það eru enn spurningar sem ekki hefur fengist svar við."

Er skýrslan endahnúturinn á þessu máli? 

„Nei, forsætisráðherra er ekki sloppinn. Það er þingnefnd að kanna hvort hann hafi sagt þinginu rangt frá, logið að þinginu. Það virðist blasa við að svo hafi verið en það skiptir öllu hvort hann vissi ekki betur, eins og hann segir sjálfur."

Hverju breytir skýrslan um framtíð forsætisráðherra? 

"Skýrslan gefur innsýn í slæmt vinnuumhverfi í kringum forsætisráðherra. Það var viðtekið að hittast í drykk, að sitja að sumbli fram eftir. Þetta er aðeins til viðbótar við að nokkuð ljóst með Boris Johnsons að hann er ekki mikill verkmaður, betri í að lyfta glasi en lyfta pólitískum grettistökum. Hverju skýrslan breytir um framtíð forsætisráðherra er annað mál. Hún breytir engu meðan þingmenn eru tilbúnir að verja leiðtogann falli. Stjórnarþingmenn voru ekki gagnrýnir í dag á leiðtoga sinn. Einn fyrrverandi ráðherra, Tobias Ellwood spurði í þinginu hvort félagar hans vildu í alvörunni halda áfram að verja forsætisráðherra daginn út og daginn inn.  

Svarið sem hann fékk var að já, það vildu ýmsir. Meðan meirihlutinn hugsar þannig þá er forsætisráðherra ekki í neinni fallhættu." Segir Sigrún að lokum.

Hlusta má á viðtal Spegilsins við Sigrúnu Davíðsdóttur í spilaranum fyrir ofan.