Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Sveigjanlegt nám er jafnréttismál“

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Háskóli Íslands hefur hlotið gagnrýni fyrir fjarnám skólans. Langveik kona á Akureyri segir lítið fjarnámsframboð koma í veg fyrir að langveikt fólk og fólk af landsbyggðinni geti stundað það nám sem það dreymir um.

Glímir við langvinn veikindi og staðnám því ekki valkostur

„Sveigjanlegt nám er jafnréttismál,“ segir Rakel Rún Sigurðardóttir sem var að ljúka sínu fyrsta námsári í nútímafræði við Háskólann á Akureyri. Rakel glímir við langvinn veikindi sem gera það að verkum að staðnám er ekki valkostur fyrir hana. Hún gagnrýnir Háskóla Íslands fyrir þau skilaboð sem send eru þeim sem ekki geta mætt í alla tíma um að þau eigi ekki erindi í háskóla. Sjálf hafði hún hug á því að stunda nám við Háskóla Íslands en komst fljótt að því að ekki væru neinar raunhæfar leiðir fyrir skólann til að koma til móts við hana og veikindi hennar. „Ég fékk það alveg þá tilfinningu að þau þóttust vilja fá mig og hjálpa mér,“ segir Rakel en ekki hafi fundist lausn á því. Sjálf segist Rakel ekki hafa haft orku í að heyja frekari baráttu við skólann en vonar að einhver annar geri það.

Fólk af landsbyggðinni í sömu sporum

Rakel segir að ákveðin bjartsýni hafi ríkt í kjölfar heimsfaraldursins um að Háskóli Íslands myndi innleiða meira fjarnám en núna hafi námið því miður að mestu leyti farið í sama horf og áður. Rakel nefnir fleiri dæmi en sitt eigið þar sem fólk af landsbyggðinni hefur sömu sögu að segja. Vakin var athygli á málinu í fréttum RÚV í fyrravetur þar sem vinkonurnar Stefanía Hrund Guðmundsdóttir og Agnes Klara Ben Jónsdóttir töluðu um stífni og ósveigjanleika skólans sem kom í veg fyrir að þær gátu sótt þar nám.

Undirskriftasöfnun hafði lítið að segja

Stefanía og Agnes komu af stað undirskriftasöfnun þar sem þær skoruðu á menntamálaráðherra og rektor Háskóla Íslands að finna lausn á þessum málum, enda sé ekki nóg að 36 af 623 áföngum skólans séu kenndir í fjarkennslu. Undirskriftalistinn hlaut lítil viðbrögð frá ríkinu en ein fyrirspurn um málið rataði inn á þing. Hún skilaði þó litlu að sögn Stefaníu. Miðað við þau viðbrögð sem Twitter-færsla Rakelar hefur fengið ímyndar hún sér að margir standi frammi fyrir því að hafa ekki möguleika á að stunda sitt draumanám.