Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ráðherrar reifuðu ólík sjónarmið segir Katrín

25.05.2022 - 12:11
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðhera segir að ráðherrar hafi reifað ólík sjónarmið um brottvísun 300 hælisleitenda á ríkisstjórnarfundi í gær. Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sagði í Kastljósi í gær að sér virtist vera sátt um málið í ríkisstjórn en Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, andmælti því í seinni fréttum í sjónvarpi í gærkvöld og sagði Jón fara með rangt mál. Forsætisráðherra segir að rætt hafi verið í ríkisstjórn að skoða þyrfti aðstæður fólksins betur.

„Það voru ólík sjónarmið reifuð á ríkisstjórnarfundi þar sem þetta mál var til umræðu,“ sagði Katrín í viðtali við Önnu Lilju Þórisdóttur fréttamann. Hún sagði að á ríkisstjórnarfundi í gær hefðu komið fram þau sjónarmið að mikilvægt væri að skoða betur samsetningu fólksins og aðstæður þess, meðal annars fjölskyldufólks sem hefði verið hérna lengst og þeirra sem ætti að senda til Grikklands.

„Það var í gær heilmikil umræða við borðið. Það er ekki hefð fyrir því að vitna í umræður á ríkisstjórnarfundi en ég get staðfest það að það voru ýmis sjónarmið reifuð frá hendi ólíkra ráðherra,“ sagði Katrín en vildi ekki greina frá því hversu margir ráðherrar hefðu lýst efasemdum vegna málsins eða komið með athugasemdir. 

Katrín sagði afstöðu sína og Vinstri grænna liggja fyrir þegar kemur að fyrirhugaðri brottvísun um 300 manns sem hafnað hefur verið um vist hér. „Það er mjög mikilvægt að horfa á samsetningu þessa hóps, reyna að meta aðstæður. Þetta er ekki einsleitur hópur sem hér er undir. Það skiptir máli að sjálfsögðu að við sýnum í þeim efnum málefnaleg sjónarmið.“ Hún segir að málið hafi verið unnið innan gildandi laga sem samþykkt hafi verið í víðtækri sátt. „Um leið er mikilvægt að við nýtum það svigrúm sem er innan rammans til að fylgja þeim megin leiðarljósum um mannúð sem eiga að vera megin leiðarljós laganna.“ Nú sé dómsmálaráðherra að fara yfir þessi atriði. Skoða verði betur þegar gögnin liggja fyrir hvað tekur við. 

„Ég myndi vilja að við gætum sem samfélag tekið miklu heildstæðari stefnu um útlendingamál. Í raun og veru er umræðan um þessi mál alltaf um einstök tilvik en sjaldnast um þá stefnu sem við viljum marka okkur sem samfélag,“ sagði Katrín og vísaði til laganna sem nú gilda. „Eftir að lögin voru samþykkt hafa ítrekað komið upp mál þar sem gerðar hafa verið verulegar athugasemdir. Það sem vantar er að við tökum þessa umræðu miklu dýpra þannig að við reynum að sameinast um stefnuna og sýnina sem við viljum fylgja.“

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sagði í gær að sátt væri um málið en Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hafnaði því og sagðist hafa gert athugasemdir við málið. „Ég veit ekki hvort það sé fordæmalaust að upplifun ráðherra sé ólík af ríkisstjórnarfundum og ráðherrafundum,“ sagði Katrín. Það er ekkert launungarmál að þeir þrír flokkar sem skipa ríkisstjórn Íslands hafa ekki sömu stefnu í þessum málum, enginn þeirra.“ Hún segir úrlausnarefnið að leysa úr málinu til lengri og skemmri tíma.

Katrín sagði að formenn ríkisstjórnarflokkanna hafi ekki fundað um málið og að það standi ekki til. Það sé í hefðbundnum ferli hjá fagráðherra. Hún var í lokin spurð hvort að það hrikti í stoðum ríkisstjórnarinnar vegna málsins. „Það tel ég ekki vera.“