Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Stýrivextir verði 5 til 6 prósent undir lok árs

24.05.2022 - 13:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Líklegt er að stýrivextir verði hækkaðir talsvert á komandi mánuðum og nái hámarki á bilinu fimm til sex prósentur undir lok þessa árs. Í kjölfarið gæti fylgt hægfara vaxtalækkunarferli þegar verðbólga hjaðnar og dregur úr spennu í hagkerfinu.

Þetta kemur fram í nýútkominni greiningu Íslandsbanka, þar sem greiningardeild bankans spáir fyrir hversu hátt stýrivextir Seðlabanka Íslands muni fara. Stýrivextir eru nú 3,75% og hafa hækkað um þrjú prósentustig undanfarið ár.

Í byrjun mánaðar ákvað peningastefnunefnd Seðlabankans að hækka vexti um eitt prósentustig. Nefndin rökstuddi þá ákvörðun meðal annars með því að verðbólguhorfur hafi versnað töluvert undanfarið. Samkvæmt nýjustu mælingum er verðbólgan 7,2%. Það er langt yfir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans.

Greining Íslandsbanka bendir á að nefndarmenn hafi í ræðu og riti fjallað um nauðsyn þess að raunstýrivextir hækki upp fyrir núllið á komandi mánuðum. Vextirnir séu enn neikvæðir á alla mælikvarða þrátt fyrir prósentu vaxtahækkunina í byrjun mánaðar. Því megi ljóst vera að talsverðrar frekari hækkunar vaxta sé þörf til að ná því markmiði.

Að því gefnu að farið verði að draga úr verðbólgu og eftirspurnarþrýstingi í hagkerfinu áætlar greining Íslandsbanka að vöxtum verði haldið óbreyttum fram eftir árinu 2023. Þeir taki svo að lækka að nýju á seinni helmingi þess árs. 

Greining bankans telur ólíklegt að vextirnir verði lægri en 5% undir lok árs 2022 en talsverðar líkur á því að þeir fari yfir 6%, sér í lagi ef verðbólga reynist þrálátari en við spáin geri ráð fyrir. Við taki svo hægfara lækkunarferli eftir mitt næsta ár í átt að jafnvægisraunvöxtum sem líklega séu á bilinu 1 til 1,5%. Stýrivextir gætu þar af leiðandi verið í grennd við 4,5% undir lok 2024.