Zelensky segir Rússlandsforseta öllu ráða heimafyrir og því sé tilgangslaust að ræða við nokkurn annan um að binda enda á innrásina í Úkraínu.
„Ef ég ræði ekki persónulega við hann verður engin ákvörðun þess efnis tekin,“ sagði Zelensky í gær þegar hann ávarpaði fundargesti Alþjóðaefnahagsráðsins í Davos, um fjarfundabúnað.
Hann kvaðst ekki mundu þiggja boð um fundi með nokkrum öðrum fulltrúa Rússlands og að hann vildi ekki ræða annað en endalok stríðsins við Pútín. Zelensky sagði enga aðra ástæðu vera til að eiga orðaskipti við Rússlandsforseta.
Fyrrverandi forseti eftirlýstur fyrir landráð
Úkraínustjórn hefur gefið út heimild til handtöku Viktors Fedóróvitsj Janúkóvitsj, fyrrverandi forseta landsins, sem sakaður er um landráð.
Ásakanirnar tengjast samningi sem gerður var á valdatíð hans um að framlengja leyfi Svarthafsflota Rússlands til aðseturs á Krímskaga til ársins 2042.
Janúkóvitsj flúði land til Rússlands árið 2014 í kjölfar fjöldamótmæla, sama ár og Rússar innlimuðu Krímskaga. Rússneskumælandi íbúar þar tóku brotthvarfi Janúkóvitsj illa og Pútín sagði að hann hefði verið hrakinn úr embætti með ólögmætum hætti.
Harðir bardagar geisa í Donbas
Zelensky segir í nýjasta ávarpinu til landa sinna að frá upphafi innrásarinnar hafi rússneskar hersveitir gert meira en þrjú þúsund loftárásir á landið og á annað þúsund eldflaugaárásir.
Pavlo Kyrylenko, æðsti maður herafla Úkraínu í Donbas, segir að þar geisi harðir bardagar. Síðasta hálfa sólarhringinn hafi einn almennur borgari fallið og fjölmargir særst.
Kyrylensko segir ennfremur að Rússar hafi látið sprengjum rigna yfir nokkrar borgir í héraðinu. Zelensky segir að ástandið innanlands sé nú hvergi verra en í Donbas.
Sergiy Gaidai, héraðsstjóri, hvatti íbúa til að leita sér skjóls fremur en að flýja á brott. Svo þungar væru sprengjuárásir Rússa að ómögulegt væri að skipulegga brottför almennings.