Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Færeyingar lítt smeykir við apabólu

24.05.2022 - 03:20
Mynd með færslu
 Mynd: KVF
Færeyingar búa sig undir að apabóluveiran skjóti sér niður á eyjunum. Prófessor í lýðheilsufræðum segir ólíklegt að faraldur sé í uppsiglingu. Hann hvetur landsmenn til rósemi.

Pál Weihe lýðheilsusérfræðingur segir í samtali við færeyska ríkisútvarpið að tíminn frá því að fólk smitast af apabóluveirunni og þar til einkenna verður vart sé ein til þrjár vikur. Á þeim tíma sé viðkomandi ekki smitandi.

Weihe segir að ólíkt COVID-19 taki smitaður einstaklingur ekki að dreifa veirunni til annarra fyrr en einkenna verður vart. Þau einkenni séu útbrot og sár á hörundi ásamt flensulíkum einkennum.

Því sé tiltölulega auðvelt að halda aftur af útbreiðslunni. Aftur á móti sé til dæmis algengt að einkennalausir smiti aðra af kórónuveirunni. Apabólu varð fyrst vart í mönnum í kringum 1970 en nú hafa borist tilkynningar um að sjúkdómsins hafi orðið vart víða um lönd.