Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

„Við hækkum bara róminn og berjumst áfram“

23.05.2022 - 01:20
epa09966604 An Afghan female news anchor wears a face veil  during a broadcast on TV in Kandahar, Afghanistan, 22 May 2022. The Taliban government on 19 May 2022, notified Afghan media outlets that the order for women to cover their faces in public extended to the entire population and therefore women TV presenters have to follow the norm, especially because they set an example for the country.  EPA-EFE/STRINGER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Afganskar sjónvarpskonur heita því að berjast áfram fyrir réttindum sínum. Talibanar hafa fyrirskipað þeim að hylja andlit sitt í útsendingu. Karlmenn sem starfa við afganskar sjónvarpsstöðvar sýndu konunum stuðning í verki.

Talibanar hafa dregið mjög úr borgaralegum réttindum eftir valdaránið í ágúst, sérstaklega réttindum stúlkna og kvenna. Sonia Niazi vinnur á Tolo, stærstu fréttastofu landsins. Hún segir að þrátt fyrir að talibanar hafi þvingað konur til að bera grímu láti þær ekki deigan síga.

„Við notum röddina til að koma baráttumálum okkar á framfæri,“ segir Niazi sem kveðst þess fullviss að ætlun talibana hafi verið að hrekja sjónvarpskonur úr starfi.

„Það er líkt og þeir vilji svipta okkur sérstöðu okkar en við hækkum bara róminn og höldum áfram að mæta í vinnuna þangað til íslamska emírdæmið rekur okkur burtu úr almannarýminu eða skipar okkur að sitja heima,“ segir Niazi.

Aðrar sjónvarpskonur taka undir orð hennar en Khpolwak Sapai, stjórnandi Tolo, segir að talibanar hafi lagt mjög hart að honum að hlýða tilskipunininni. „Ákvörðun var ekki okkar val heldur fyrirskipun þeirra,“ segir hann. 

Síðdegis í gær ákváðu starfsbræður kvennanna að bera svartar grímur í útsendingu í andófi gegn tilskipuninni. Mohammad Akif Sadeq Mohajir, talsmaður siðgæðisráðuneytisins, kveðst fagna því að sjónvarpsstöðvarnar hafi hlýtt fyrirmælum.

Hann segir að ætlunin sé alls ekki að ýta sjónvarpskonum til hliðar eða svipta þær réttinum til atvinnu. Fyrr í mánuðinum fyrirskipaði Hibatullah Akhundzada, æðsti leiðtogi Afganistan, konum að hylja sig nánast algerlega á almannafæri.

Siðgæðisráðuneyti landsins ákvað að það ætti einnig við í sjónvarpi. Sjónvarpskonur virtu þá fyrirskipun að vettugi á laugardaginn en eftir að þeim var hótað brottrekstri huldu þær sig nær alveg í útsendingu í gær.