Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Telja mannfall Rússa svipað og var í Afganistan

epa09963190 A man on the wheelchair looks at destroyed Russian armored vehicles displayed for Ukrainians to see at Mykhailivska Square in downtown Kyiv, Ukraine, 21 May 2022. Russian troops entered Ukraine on 24 February resulting in fighting and destruction in the country and triggering a series of severe economic sanctions on Russia by Western countries.  EPA-EFE/OLEG PETRASYUK
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Leyniþjónusta Bretlands telur að mannfall meðal Rússa í Úkraínu jafnist á við það sem var meðan á níu ára styrjöld stóð í Afganistan. Meirihluti þingmanna á þingi Úkraínu hefur ákveðið að banna notkun bókstafanna V og Z á opinberum vettvangi.

Mannfall í rússneska innrásarliðinu í Úkraínu jafngildir því sem herir Sovétríkjanna misstu meðan á hernaðarafskiptum þeirra stóð í Afganistan á níunda áratugnum.

Þetta kemur fram í nýrri samantekt og mati breska varnarmálaráðuneytisins. Um fimmtán þúsund hermenn féllu í styrjöldinni í Afganistan, sem varði í níu ár, og mat leyniþjónustunnar er að mannfallið sé svipað í Úkraínu á tæpum þremur mánuðum.

Leyniþjónustan kennir það lítilli herkænsku, skorti á sveigjanleika og endurteknum mistökum sem verður nú til þess að mannfall eykst enn, einkum í austurhéruðunum þar sem blóðugir bardagar geisa.

Viðbúið þykir að tíðindi af manntjóni hersins dragi heldur úr stuðningi við innrásina meðal almennings í Rússlandi. 

Meirihluti þingmanna á úkraínska þinginu hefur ákveðið að banna notkun bókstafanna V og Z á opinberum vettvangi. Zetan er iðulega máluð á hernaðartæki rússneska innrásarliðsins.

Eins má sjá táknið notað víða um Rússland í stuðningi við hernað Vladímírs Pútíns í Úkraínu og það á sömuleiðis við um sigurtáknið margfræga, vaffið.

Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti leggur að sögn Reuters-fréttastofunnar þunga áherslu á að merking stafanna megi ekki gleymast og því megi sýna þá í sögulegu samhengi og við kennslu. Hvorugan stafinn er að finna í rússneska stafrófinu.