
Telja mannfall Rússa svipað og var í Afganistan
Mannfall í rússneska innrásarliðinu í Úkraínu jafngildir því sem herir Sovétríkjanna misstu meðan á hernaðarafskiptum þeirra stóð í Afganistan á níunda áratugnum.
Þetta kemur fram í nýrri samantekt og mati breska varnarmálaráðuneytisins. Um fimmtán þúsund hermenn féllu í styrjöldinni í Afganistan, sem varði í níu ár, og mat leyniþjónustunnar er að mannfallið sé svipað í Úkraínu á tæpum þremur mánuðum.
Leyniþjónustan kennir það lítilli herkænsku, skorti á sveigjanleika og endurteknum mistökum sem verður nú til þess að mannfall eykst enn, einkum í austurhéruðunum þar sem blóðugir bardagar geisa.
Viðbúið þykir að tíðindi af manntjóni hersins dragi heldur úr stuðningi við innrásina meðal almennings í Rússlandi.
Meirihluti þingmanna á úkraínska þinginu hefur ákveðið að banna notkun bókstafanna V og Z á opinberum vettvangi. Zetan er iðulega máluð á hernaðartæki rússneska innrásarliðsins.
Eins má sjá táknið notað víða um Rússland í stuðningi við hernað Vladímírs Pútíns í Úkraínu og það á sömuleiðis við um sigurtáknið margfræga, vaffið.
Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti leggur að sögn Reuters-fréttastofunnar þunga áherslu á að merking stafanna megi ekki gleymast og því megi sýna þá í sögulegu samhengi og við kennslu. Hvorugan stafinn er að finna í rússneska stafrófinu.