Á seinasta ári voru níutíu milljónir manna á flótta undan stríðsátökum í Mjanmar, Eþíópíu, Afganistan, Nígeríu og fleiri löndum. Frá því Rússar réðust inn í Úkraínu hafa sex milljónir yfirgefið landið og átta milljónir eru á vergangi innanlands.
Rússar segjast tilbúnir til viðræðna
Vladimir Medinsky, aðalsamningamaður Rússlandsstjórnar, kveðst reiðubúinn til friðarviðræðna við Úkraínumenn en segir frumkvæðið þurfa að koma þaðan.
Þetta kom fram í viðtali við hann á hvítrússneskri sjónvarpsstöð þar sem hann sagði Úkraínumenn hafa stöðvað viðræðurnar. Fulltrúar ríkjanna hafa rætt nokkrum sinnum saman, bæði augliti til auglitis í Tyrklandi og á fjarfundum. Enn hefur enginn árangur náðst.
Samvinna við landamæraeftirlit
Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti segir að fimmtíu til hundrað úkraínskir hermenn falli í valinn á hverjum einasta degi. Einkum sé mannfallið mikið í austanverðu landinu þar sem harðir bardagar eru nú háðir.
Þetta kom fram á sameiginlegum á blaðamannafundi forsetans og Andrzejs Duda forseta Póllands í gær. Hann ávarpaði þingið í Kyiv, fyrstur þjóðarleiðtoga frá upphafi innrásar.
Zelensky segir þá hafa komist að samkomulagi um að tryggja vöruflutninga milli landanna með sameiginlegu tolleftirliti við landamærin. Zelensky segir byltingarkennt skref hafa verið stigið sem geri allt landamæraeftirlit mun auðveldara en áður.
Ríkisfjölmiðlar í Rússlandi hafa nokkuð gert því skóna undanfarið að kjarnavopnum kunni að verða beitt í Úkraínu.
Norska ríkisútvarpið hefur eftir Sverre Diesen, fyrrverandi varnarmálastjóra landsins, að allt slíkt tal sé hreinn áróður sem hvorki hafi pólitíska né hernaðarlega þýðingu.