Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Fengu góðar undirtektir á fundum með tæknirisum

Íslenska sendinefndin sem fundaði með forsprökkum Google, Microsoft, Amazon og fleiri risavaxinna tæknifyrirtækja í Bandaríkjunum fékk góðar undirtektir við bón sinni um samstarf við að tryggja sess íslenskunnar í stafrænum heimi. Þetta sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í Kastljósi í kvöld.

Auk Guðna voru í sendinefndinni Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Almannaróms, og fleiri sérfræðingar.

Guðni sagði að framtíðin yrði öll á þann veg að boð verði flutt í tali á milli tækja og manna. „Við munum tala við tæki og ekki aðeins til að spyrja símann okkar hvað klukkan sé eða hver sé höfuðborgin í Kosta Ríka, eða eitthvað á þeim nótum, heldur verður þessi tækni notuð í heilbrigðisgeira, menntun og svo miklu, miklu víðar.“

Hann sagði markmið ferðarinnar að tryggja að í allri þróun verði hugað að því að tungumál heimsins eigi pláss á þessum nýja vettvangi. Sendinefndin hafi ekki verið á hnjánum, biðjandi um eitthvað, heldur mætt til leiks vopnuð rökum og upplýsingum um mikilvægi erindis síns.

„Með þetta í farteskinu fórum við til þessara tæknirisa og sögðum að við ætluðum að vinna saman. Við ætlum að bjóða ykkur til samstarfs og við blessunarlega fengum góðar undirtektir hvarvetna,“ sagði Guðni.

Hann sagðist halda að þessi viðleitni, áformin um að tryggja íslenskri tungu sess í stafrænum heimi, muni skipta máli þegar upp er staðið.

Sjá má viðtalið við Guðna Th. Jóhannesson í spilaranum hér að ofan.
 

Þórgnýr Einar Albertsson