Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Félagsráðgjafar lýsa áhyggjum af brottvísun flóttamanna

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Félagsráðgjafafélag Íslands segir mikið áhyggjuefni að stór hópur umsækjenda um alþjóðlega vernd eigi nú yfir höfði sér að vera vísað úr landi. Í ályktun frá félaginu segir að íslenska ríkið stuðli með brottvísununum að því að hrekja fleiri á flótta um Evrópu. Skorar félagið á stjórnvöld að hafa mannúðarsjónarmið í fyrirrúmi í ákvörðunum um móttöku flóttafólks og við lagasetningu er varðar málefni útlendinga.

Til stendur að vísa hátt í 300 umsækjendum um alþjóðlega vernd úr landi og hefur aldrei áður staðið til að vísa svo mörgum úr landi á sama tíma. Ástæða þess að svo fjölmenn brottvísun stendur fyrir dyrum er að takmarkanir vegna covid-19 höfðu áhrif á framfylgd úrskurða síðustu misseri. 

Í ályktun félagsráðgjafafélagsins segir að Ísland þurfi að leggja sitt af mörkum til þróunarsamvinnu, mannúðar- og neyðaraðstoðar. Félagsráðgjafarnir segja að áform stjórnvalda nú séu í hrópandi mótsögn við þau markmið. 

Með brottvísununum sé verið að auka á áfallastreitu, afkomuóöryggi, heimilisleysi og hættu á að einstaklingar verði fyrir ofbeldi. Í ályktuninni segir jafnframt að félagsráðgjafar vinni gegn mannréttindabrotum hvar sem þau eiga sér stað.

astahm's picture
Ásta Hlín Magnúsdóttir