Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Sinnepsskortur blasir við Frökkum

22.05.2022 - 06:30
Mynd með færslu
 Mynd: J.E.Melsæter - wikimedia commons
Frakkar standa frammi fyrir sinnepsskorti í sumar. Ástæðan er margþætt. Miklir þurrkar í Kanada, léleg uppskera innanlands og stríðið í Úkraínu valda því að varla er mustarðskorn að fá.

Fjöldi verslana á í stökustu vandræðum með að útvega sinnep og verðið hefur hækkað um tíu prósent á skömmum tíma. Á seinasta ári urðu þurrkar í landbúnaðarhéruðum vestanvert í Kanada til þess að uppskera hrundi en Frakkar kaupa mikið af sinnepskorni þaðan.

Framleiðsla á korninu hefur einnig verið undir væntingum innanlands síðustu þrjú ár, nú seinast vegna votviðrasams vetrar og vorkulda. 

Luc Vondermaeson, forstjóri La Reine de Dijon þriðja stærsta sinnepsframleiðanda Frakklands, segir framleiðslu sinneps núna vera nærri fjórðungi undir því sem venjulegt er.

Hann segir mjög hafa dregið úr framboði á sinnepskorni síðan í janúar og að hann eigi mesta basli með að útvega það. Ekki sé heldur hægt að bæta úr skortinum með innflutningi frá Rússlandi og Úkraínu vegna stríðsins.

Árásir Rússa, viðskiptaþvinganir vesturlanda og hafnbann við Svartahaf hafa orðið til þess að mikill skortur er orðinn á mörgum þeim fæðutegundum sem bæði Rússar og Úkraínumenn framleiða og flytja út.

Sameinuðu þjóðirnar vöruðu fyrr í vikunni við því að hætta gæti verið á langvinnum fæðuskorti um alla jörð vegna innrásarinnar.