Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Óttast að fólkið verði sent í hættulegar aðstæður

Mynd: EPA-EFE / ANA-MPA
Hættulegar aðstæður bíða þeirra tæplega 300 útlendinga sem til stendur að senda úr landi til Grikklands, að mati Rauða krossins. Kona sem hefur starfað í flóttamannabúðum í Grikklandi óttast þá stefnu sem verið sé að marka í útlendingamálum hér á landi.

Rauði krossinn hefur margítrekað að ekki sé forsvaranlegt að senda flóttafólk héðan í flóttamannabúðir í Grikklandi, en í síðustu viku fengu hátt í 300 umsækjendur um alþjóðlega vernd að vita að þeim yrði brátt vísað þangað:

„Það eru yfirfullar flóttamannabúðir, það er erfitt atvinnuástand og þegar fólk hefur fengið stöðu sem flóttamaður þá er það svolítið mikið bara á eigin vegum. Og það er ekki mikið sem blasir við þegar sú er staðan,“ segir Brynhildur Bolladóttir upplýsingafulltrúi Rauða krossins á Íslandi.

Erum við að senda fólk í hættulegar aðstæður? „Já, ég held að það gæti alveg verið hættulegt.“

Brynhildur segir það vekja athygli að vísa eigi fólkinu úr landi á sama tíma og talað sé um að þörf sé á fleiri vinnandi höndum. „Hér er fólk sem svo sannarlega hefur fest rætur og það mætti endilega líta til þess að það eru búnar að vera sérstakar aðstæður í heiminum síðustu rúm tvö ár. Stjórnvöld gætu alveg litið til þess.“

Spurð hvort ekki sitji allir flóttamenn við sama borð; hvort þeir séu ekki allir jafnir svarar Brynhildur: „Ég veit það ekki.“

Þórunn Ólafsdóttir hefur starfað í þágu flóttafólks bæði hér á landi og í flóttamannabúðum í Grikklandi. Hún óttast þá stefnu sem útlendingamál eru að taka. „Það er mikið talað um að Ísland sé að horfa til Norðurlandanna í þessum efnum, það er svolítið loðið því að mér sýnist á öllu því sem er í gangi að við séum að horfa til Danmerkur. Danir eru með eina hörðustu innflytjendastefnu og flóttamannastefnu í heimi,“ segir Þórunn.

Þórunn segir að aðstæður í flóttamannabúðum í Grikklandi séu hrikalegar.  „Það er vitað mál að fólk sem fær þar alþjóðlega vernd býr á götunni. Það er aftast í röðinni þegar kemur að húsnæði, þegar kemur að atvinnu. Börn alast jafnvel upp á götunni eða í tjaldbúðum og það er nákvæmlega ekkert öruggt við það að vera í Grikklandi.“

Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra gaf ekki kost á viðtali vegna málsins. Það gerðu ekki heldur Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra eða Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.