Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Orðræða í kringum apabólu ýti undir fordóma

22.05.2022 - 21:14
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia
Alnæmisstofnun Sameinuðu þjóðanna lýsti því yfir í dag að fjölmargar fréttir fjölmiðla af apabóluveirunni væru litaðar af kynþáttafordómum og hómófóbíu.

Stofnunin varaði við auknum fordómum í kjölfarið á umfjöllun um apabóluveiruna, sem nú hefur greinst í fimmtán löndum hið minnsta og eru tilfellin yfir áttatíu talsins. Apabóla er sjúkdómur sem sprettur af veirusýkingu og hefur bólan til að mynda stungið sér niður í Noregi, Svíðþjóð, á Bretlandi og Spáni.

Allir geta smitast

Í yfirlýsingunni sagði stofnunin að þrátt fyrir að verulegur hluti þeirra sem smitast hefðu af bólunni væru karlmenn sem stunduðu kynlíf með öðrum karlmönnum gæti hver sem er smitast af henni. Smit berist á milli með nánum samskiptum við fólk, sama af hvaða kyni þau kann að vera. Því sé verið að auka fordóma gegn samkynhneigðu fólki með orðræðunni.

Sjúkdómurinn er talinn landlægur í um ellefu Afríkuríkjum og hafa margir fjölmiðlar birt myndir af hörundsdökku fólki með einkenni bólunnar. Stofnunin gagnrýnir það einnig harðlega.

Haft er eftir Matthew Kavanagh, aðstoðarframkvæmdastjóra Alnæmisstofnunarinnar, að skammarmark og ásakanir grafi undan trausti og getu til að bregðast við á áhrifaríkan hátt við sjúkdómum eins og apabólu.