Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Mbappé áfram hjá PSG

epa08260092 Paris Saint-Germain's Kylian Mbappe celebrates after scoring the 4-0 lead during the French Ligue 1 soccer match between Paris Saint-Germain (PSG) and Dijon FCO at the Parc des Princes stadium in Paris, France, 29 February 2020.  EPA-EFE/YOAN VALAT
 Mynd: EPA

Mbappé áfram hjá PSG

21.05.2022 - 20:13
Framherjinn ógnarhraði Kylian Mbappé hefur ákveðið að halda sig í Parísarborg. Spilar hann fyrir Paris Saint-Germain næstu þrjú tímabil hið minnsta, út 2025. Talið er að samningurinn sé einn sá stærsti í sögu fótboltans.

Franski landsliðsframherjinn hyggst spila með frönsku meisturunum áfram, en á yfirstandandi tímabili var hann fyrsti leikmaður í sögu efstu deildar í Frakklandi til að vera bæði marka- og stoðsendingahæstur. Hann hefur skorað 168 mörk og lagt upp önnur 87 í 216 leikjum frá komu sinni frá Monaco. Það gera 1.18 mörk sem hann kemur að í leik, sem verður að teljast ansi gott. 

Mbappé er einungis 23 ára en hefur þó unnið frönsku deildina fjórum sinnum með PSG auk franska bikarsins þrisvar. Þá vann hann einnig frönsku deildina með Monaco tímabilið 2016-2017, auk þess að vinna Heimsmeistaramótið í knattspyrnu með Frökkum árið 2018.  

Parísarmenn hafa ekki farið leynt með það að stærsta markmiðið er að vinna Meistaradeildina, en þar hefur vantað herslumuninn upp á. Í ár féll liðið út gegn Real Madrid en lengst komust PSG menn og Mbappé í úrslitaleikinn 2020 þar sem þeir lutu í lægra haldi begn Bayern München. 

“Ég vil lýsa því yfir að ég hef ákveðið að framlengja samning minn við Paris Saint-Germain, og ég er auðvitað gífurlega ánægður. Ég er sannfærður um að ég geti haldið áfram að vaxa í félagi sem að veitir mér allt sem er nauðsynlegt til þess að spila á hæsta getustigi. Ég er einnig virkilega ánægður að spila áfram í Frakklandi, landinu sem ég fæddist og ólst upp í, og þar sem ég komst til metorða. 

Ég vil einnig þakka forsetanum Nasser Al-Khelaïfi fyrir traust hans, skilning og þolinmæði. Ég vil sömuleiðis þakka stuðningsmönnum PSG fyrir þeirra stuðning síðustu mánuði, bæði í Frakklandi og víðs vegar um heim. Sameinuðu munum sýna metnað og skapa töfra saman í París,” sagði Mbappé í yfirlýsingu. 

Stórfregnirnar voru tilkynntar fyrir síðasta leik tímabilsins gegn Metz. Rétt eftir hálfleik standa leikar 4-0 og Mbappé fullkomaði þrennu sína á 50. mínútu.