
Illa hefur gengið að fylgjast með landrisi í Öskju síðustu mánuði. Vegna snjóþunga hefur ekki náðst að greina gervihnattarmyndir af svæðinu og engar nákvæmar mælingar hafa borist síðan í desember, þegar GPS-mælir Veðurstofu bilaði vegna veðurs.
Í vikunni var mælitækinu komið í lag og því hafa nákvæmar mælingar hafist á ný. Ekki hefur verið hægt að greina rishraða síðan mælirinn komst aftur í gang, en hraðinn var mikill áður en mælitækið bilaði.
Í september lýsti ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Norðurlandi eystra yfir óvissustigi Almannavarna á svæðinu vegna landrissins. Ljóst er að talsverð þensla er enn við Öskju og óvissustig er því enn við gildi.
Landið við Öskju reis mikið á síðari hluta síðasta árs, en það hafði risið um 20 cm þann tuttugasta desember þegar mælitækið bilaði. Þá var talið að kvika væri að safnast fyrir á tveggja til þriggja kílómetra dýpi.