Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Boðar stórveldi grænna lausna eftir kosningasigur

21.05.2022 - 14:45
epa09952058 Australian Opposition Leader Anthony Albanese speaks during the West Australian’s Leadership Matters Federal Election Breakfast on Day 37 of the 2022 federal election campaign in Perth, Australia, 17 May 2022.  EPA-EFE/LUKAS COCH AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Anthony Albanaese, leiðtogi Verkamannaflokksins í Ástralíu, verður næsti forsætisráðherra landsins eftir sigur í þingkosningum sem þar fóru fram í dag. Albanese segist vilja gera Ástralíu að ofurveldi þegar kemur að endurnýjanlegum orkugjöfum.

Þetta er í fyrsta sinn síðan árið 2013 sem Verkamannaflokkurinn kemst í meirihluta á sambandsþingi Ástralíu. Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, óskaði Albanese tilvonandi forsætisráðherra Ástralíu til hamingju þegar ljóst hvar hvernig færi, og vonaðist eftir góðri samvinnu ríkjanna, sérstaklega þegar kemur að grænum lausnum.

Það rímar við áherslur Albanese. Á fundi með stuðningsmönnum sínum þegar hann lýsti yfir sigri sagði hann áströlsku þjóðina hafa komið vilja sínum til breytinga á framfæri. Hann ætli að gera Ástralíu að ofurveldi þegar kemur að endurnýjanlegri orku. 

Albanese hefur meðal annars talað gegn kolanotkun Ástrala, þótt hann hafi hingað til ekki viljað ganga svo langt að leggja til að loka kolanámum í landinu. Hann boðar 43% minni losun í Ástralíu árið 2030, miðað við það sem var árið 2005, og vill beita sér fyrir því að heilu samfélögin geti verið sjálfbær um sólarorku.

Scott Morrison, leiðtogi Frjálslynda flokksins og fráfarandi forsætisráðherra, sagði síðustu þrjú ár sín í embætti hafa verið erfið enda litast af kórónuveirufaraldrinum og gríðarlegum gróðureldum og flóðum í landinu.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV