Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Auknar fjárveitingar dragi úr sóun í heilbrigðiskerfinu

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja telur það lengi hafa blasað við að fjárveitingar til ríkisstofnana á Suðurnesjum hafi ekki tekið mið af fjölgun íbúa á undanförnum árum. Stofnunin kallar eftir auknum fjárveitingum sem dragi í kjölfarið úr sóun í heilbrigðiskerfinu.

Þetta hafi leitt til þess að íbúar Suðurnesja hafi í miklum mæli ekki fengið úrlausn sinna erinda í héraði heldur neyðst til að leita í dýrari úrræði á höfuðborgarsvæðinu.

HSS leitaði til ráðgjafafyrirtækisins Deloitte til að leggja mat á getu stofnunarinnar til að veita hverjum íbúa þjónustu miðað við síðustu fimm ár. Í skýrslu Deloitte kemur fram að geta stofnunarinnar til að veita hverjum íbúa þjónustu hafi minnkað um 22 prósent miðað við fjárveitingu á hvern íbúa. Á sjúkrasviði stofnunarinnar, sem sinnir meðal annars slysa- og bráðaþjónustu, hefur lækkunin numið 45 prósentum á hvern íbúa.

Niðurstöðurnar hafi ekki komið á óvart

Markús Ingólfur Eiríksson, forstjóri HSS, segir í skriflegu svari að niðurstöður skýrslunnar hafi ekki komið á óvart.

„Þetta er búið að vera lengi í umræðunni en við vildum fá staðreyndirnar á blað. Þær eru að fjárveitingar til HSS hafa hvorki staðið undir þróun rekstrarkostnaðar né fjölgun íbúa.“

Markús segist telja að um töluverða sóun sé að ræða á dýrmætu skattfé sem fólgin sé í því að ríkið veiti ekki fullnægjandi heilbrigðisþjónustu heima í héraði og erindin þurfi því að leita í dýrari úrræði.

„Þrátt fyrir að við séum nánast með kraftaverkafólk í hverri stöðu höfum við ekki náð að sinna okkar hlutverki sem skyldi um alltof langan tíma.

Sú þróun þarf að enda og við þurfum að fjölga verulega í okkar röðum til að geta staðið undir því hlutverki sem okkur er ætlað. Ég hef fulla trú á að okkur muni takast það í samstarfi við heilbrigðisráðherra.“

Hann segir að á næstu árum sé búist við frekari uppbyggingu á Suðurnesjum, fjölgun íbúa og atvinnutækifæra og vandinn sé því vaxandi.