Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Á fjórða hundrað jarðskjálftar frá miðnætti

Jarðskjálftar á Reykjanesskaga 21.5.22
 Mynd: Veðurstofa Íslands - Kort
Jörð skelfur enn á Reykjanesskaga og á fjórða hundruð skjálftar hafa þar mælst frá miðnætti. Skjálftarnir koma í kviðum, sá stærsti var 3,3 að stærð. Náttúruvársérfræðingur segir von á nýjum gögnum um stöðu mála.

Stærsti skjálftinn varð laust eftir klukkan þrjú í nótt og átti upptök sín á rúmlega fimm kílómetra dýpi tæpa fjóra kílómetra norður af Grindavík. 

„Um 360 skjálftar hafa mælst frá miðnætti og þeir eru að mestu bundnir við svæðið norðaustur af Grindavík. En nokkur virkni er einnig út fyrir Reykjanestá,“ segir Sigríður Magnea Óskarsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Í gær mældust um 900 skjálftar á svæðinu sem Magnea segir að sé svipað og dagana á undan.  „Virknin er áfram viðvarandi. Hún er svolítið kviðubundin, dettur stundum eitthvað niður en tekur sig svo upp aftur, sérstaklega eftir stærri skjálftana. En það eru bara áfram þessir skjálftar og það virðist ekkert vera að aukast.“

Er verið að auka vöktun á svæðinu? „Við erum með mjög góða og þétta vöktun þannig að ég veit ekki til þess að það sé verið að setja upp fleiri mæla.“

Magnea segir að í dag muni gervitungl fljúga yfir svæðið og taka af því mynd, svokallaða InSAR mynd. Vinna þurfi úr henni og greina þau gögn sem þannig safnast og þeirri vinnu verði væntanlega lokið eftir helgi.