Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ráðherra tekur fram fyrir hendur skólanefndar MA

Menntaskólinn á Akureyri.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Menntamálaráðherra hefur brugðist við kröfu kennarafélags Menntaskólans á Akureyri og skipað óháða nefnd til að meta hæfi umsækjenda um starf skólameistara MA. Kennarafélagið lýsti yfir vantrausti á störf skólanefndar MA við ráðningarferli skólameistara.

Í áskorun til Ásmundar Einars Daðasonar, menntamálaráðherra, gagnrýnir kennarafélag MA skólanefndina harðlega og fer fram á að ráðherra leysi nefndina frá störfum.

Framferði skólanefndar með öllu ólíðandi, ófaglegt og siðlaust

Í áskoruninni, sem birt er á akureyri.net, segir að formaður skólanefndar hafi haft samband við ákveðinn aðila, hvatt hann til að sækja um stöðu skólameistara og gefið honum ádrátt um stuðning nefndarinnar. Viðkomandi hafi hafnað tilboðinu og upplýst ráðuneytið um samtalið. „Ekki þarf að fjölyrða um að svona framferði er með öllu ólíðandi. Það er ófaglegt og siðlaust,“ segir meðal annars í áskorun kennarafélags MA sem skorar á ráðherra að stöðva umsóknarferlið og auglýsa stöðu skólameistara að nýju.

Skipar utanaðakomandi hæfnisnefnd 

Menntamálaráðherra, hefur nú brugðist við kvörtun kennarafélagsins og ákveðið að skipa utanaðkomandi nefnd til að meta gögn frá umsækjendum um starf skólameistara Menntaskólans á Akureyri. „Í ljósi stöðunnar mun ráðherra skipa hæfninefnd utanaðkomandi sérfræðinga til að leggja mat á sömu gögn frá umsækjendum og skólanefndin byggði umsögn sína á. Umsögn skólanefndar, hæfninefndar og erindi Kennarafélagsins verða meðal þeirra gagna sem horft verður til við skipun nýs skólameistara,“ segir meðal annars í tilkynningu frá ráðneytinu. Þá verði farið yfir þær ábendingar sem borist hafi um skólanefndina með tilliti til áframhaldandi starfa hennar.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV