Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Gögn talin sanna aftökur almennra borgara í Bucha

20.05.2022 - 01:40
Journalists take pictures next to a mass grave in Bucha, in the outskirts of Kyiv, Ukraine, Sunday, April 3, 2022. (AP Photo/Rodrigo Abd)
 Mynd: AP - RÚV
Vitnisburður og upptaka sjónarvotts og upptaka úr öryggismyndavélum þykja sanna að rússneskir fallhlífarhermenn tóku að minnsta kosti átta úkraínska karlmenn af lífi í úkraínsku borginni Bucha.

Atburðirnir gerðust 4. mars og eru taldir jafngilda stríðsglæp. Bandaríska blaðið The New York Times hefur gögnin undir höndum.

Á upptökum má sjá mennina ganga álúta í halarófu undir gínandi byssukjöftum rússnesku hermannanna. Upptökurnar þykja sanna að mennirnir voru í haldi rússneskra hermanna örfáum mínútum áður en þeir voru líflátnir. 

Einn hinna föngnu manna er íklæddur áberandi blárri peysu. Heyra má lýsingu á atburðarásinni á upptöku sjónarvottsins en upptökunni lýkur áður en frekar dregur til tíðinda.

Átta sjónarvottar greindu blaðamönnum New York Times frá því að farið hefði verið með mennina á bakvið stóra skrifstofubyggingu við Yablunska-stræti, þá hefðu byssuskot kveðið við en fangarnir sneru ekki aftur.

Rússar neita sök

Upptaka úr dróna sem flaug yfir svæðið daginn eftir sýnir lík liggja á götunni við skrifstofuhúsið, eitt þeirra íklætt skærblárri peysu. Ljósmynd sem sýndi lík mannanna var ein fjölmargra sem vöktu heimsathygli og reiði snemma í apríl í kjölfar brotthvarfs rússneskra hersveita frá Bucha.

Háttsettir rússneskir embættismenn hafa æ síðan þvertekið fyrir að illvirki hafi verið framin í Bucha og sagt myndirnar falsaðar og til þess ætlaðar að vekja almenna reiði.

Rannsókn blaðamanna Times, sem hefur tekið nokkrar vikur, þykir sanna hreinan ásetning hermannanna að lífláta mennina.

Í umfjöllun blaðsins segir að slík aftaka sé að öllum líkindum stríðsglæpur en hvorki utanríkis- né varnarmálaráðuneyti Rússlands vildu tjá sig við blaðið þegar eftir því var leitað.