Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fimm sumarleg og seiðandi á föstudegi

Mynd með færslu
 Mynd: Motown Records - Diana

Fimm sumarleg og seiðandi á föstudegi

20.05.2022 - 14:25

Höfundar

Það er raftónlistarslagsíða á fimmunni þennan föstudag þar sem boðið er upp á rafpopp frá Flume ásamt Emmu Louise og alvarlegri sálma frá Daniel Avery og vinkonum hans Kelly Lee Owens og HAAi. Síðan rennum við okkur á dansgólfið í sleggjur frá KH, Diönu Ross og Tame Impala og lokum þessu í nostalgíukasti Pusha T og Kanye West.

Flume, Emma Louise - Hollow

Ástralski dansdelinn og Grammy-verðlaunahafinn Flume heldur áfram að senda frá sér lög af plötu sinni Palaces sem kemur út í dag. Nýja lagið sem var frumflutt í gær til að kynda mannskapinn heitir Hollow og skartar söngkonunni Emmu Louise en meðal gesta á plötunni eru Caroline Polacheck, Damon Albarn og fleiri.


Daniel Avery, Kelly Lee Owens, HAAi - Chaos Energy

Tónlistarmaðurinn Daniel Avery býður upp á kunnuglega, myrka og draumkennda grill stemmningu í lagi sínu Chaos Energy þar sem hann vinnur með rafdrottningunum Kelly Lee Owens og HAAi. Lagið er aðal söngullinn af plötu kappans Ultra Truth sem fjallar um að horfa einbeittur inn í myrkrið og kemur þess vegna út í byrjun vetrar.


KH- Looking At Your Pager

Þegar Kieran Hebden eða Four Tet er í svakalegri dansstemningu þá notar hann listamannsnafnið KH og undir því nafni sendi hann frá sér lagið Looking At Your Pager í gær. Annars hefur farið frekar lítið fyrir kappanum undanfarið en hann hefur barist í réttarsölum við fyrrum útgáfufyrirtæki sitt Domino um streymistekjur af hugverkum sínum.


Diana Ross, Tame Impala - Turn Up the Sunshine

Tónlistarfólkið Diana Ross og Kevin Parker úr Tame Impala er kannski ekki það líklegasta til að vinna saman en þegar von er á nýrri mynd frá Skósveinunum (Minions) þá gerast kraftaverk. Lagið heitir Turn Up the Sunshine og verður örugglega einn af slögurum sumarsins sem bræðir saman gamla sálardiskóhljóm Diönu í bland við nútímalegri hljóm Tame Impala.


Pusha T, Kanye West - Dreamin of the Past

Það er ekki ódýrasta samplið sem þeir fóstbræður Pusha T og Kanye West nota í slagaranum Dreamin of the Past en það er tekið frá útgáfu Donny Hathaway af lagi John Lennon frá 1971 Jealous Guy. Annars eru þeir vinirnir bara frekar slakir að velta fyrir sér hvað þeir hafa það helvíti fínt í laginu sem átti upphaflega að koma út á plötu Kanye - Donda.


Fimman á Spottanum