Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Brasilíuforseti gagnrýnir enn rafrænt kosningakerfi

epa07613377 Brazilian President Jair Bolsonaro takes part in the signing of the National Policy of Regional Development Decree, in Brasilia, Brazil, 30 May 2019.  EPA-EFE/Joedson Alves
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Jair Bolsonaro forseti Brasilíu upphóf í dag að nýju gagnrýni sína á rafrænt kosningakerfi landsins sem verið hefur við lýði allt frá árinu 1996. Hann hefur löngum dregið öryggi kerfisins í efa.

Bolsonaro sagði á síðasta ári að hann myndi ekki viðurkenna niðurstöður forsetakosninganna í október næstkomandi nema kerfinu yrði breytt. Hann sagði á fundi í Rio de Janeiro í dag að ómögulegt væri að nota tækni við kosningar, sem yfir hvíldi skuggi efasemda.

Kosið er með rafrænum hætti en forsetinn hefur krafist þess að hvert greitt atkvæði verði einnig prentað út svo koma megi í veg fyrir kosningasvindl. Rafræn kosning gerir kleift að telja samdægurs atkvæði allra 213 milljóna Brasilíumanna.

Bolsonaro hefur ekki tekist færa sönnur á svindl og æðsti kosningalagadómstóll landsins fullyrðir að kerfið sé gagnsætt og aldrei hafi komið upp vandi með það.

Forsetinn hefur lýst því yfir að hann hyggist ráða óháð fyrirtæki til að fara yfir niðurstöður kosninganna í haust. Skoðanakannanir sýna enn mun meira fylgi við Luiz Inacio Lula da Silva, helsta keppinaut Bolsonaros, sem kveðst búast við ófriðsamlegum kosningum.

Greinendur telja ekki útilokað að athugasemdir Bolsonaros um kosningakerfið leiði til þess að hann neiti að viðurkenna ósigur komi til þess að hann lúti í lægra haldi fyrir Lula.

Elon Musk, auðugasti maður veraldar, er kominn til Brasilíu til fundar við Bolsonaro. Ekki hefur verið gert uppskátt hvað þeir hyggjast ræða en Bolsonaro greindi frá fundi með afar valdamiklum manni sem kominn væri til að bjóða hjálp sína varðandi björgun regnskóganna í Amazon.