Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Ástralir og fleiri rannsaka tilfelli apabólu

20.05.2022 - 06:48
epa09959550 Victoria's Chief Health Officer Professor Brett Sutton speaks during a press conference in Melbourne, Australia, 20 May 2022. A case of monkeypox has been confirmed in Australia in a returned traveller from the UK, Victoria's health department has confirmed.  EPA-EFE/JOEL CARRETT AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Heilbrigðisyfirvöld í Frakklandi, Ítalíu, Svíþjóð og Ástralíu rannsaka nú hvort apabóla hafi komið upp þar í löndum. Staðfest er að smit hafa komið upp í Bandaríkjunum, á Spáni, Bretlandi og í Portúgal og Kanadamenn eru enn að rannsaka hvort vísbendingar um þrettán smit þar í landi eigi við rök að styðjast.

Apabóla er algengust á afskekktum svæðum í Mið- og Vestur-Afríku og smit annars staðar tengjast yfirleitt ferðalögum þangað. Apabóla er sjaldgæfur veirusjúkdómur, sjúkdómseinkenni eru oftast mild og fólk nær sér innan fárra vikna frá smiti.

Heilbrigðisyfirvöld segja litlar líkur á mikilli útbreiðslu apabólu þar sem veiran á erfitt með að dreifa sér. Ástralir greindu frá fyrsta tilfelli apabólu í morgun en sá sýkti veiktist eftir ferðalag til Evrópu.

Fyrsta tilfellið var tilkynnt á Bretlandseyjum 7. maí en sjúklingurinn var nýkominn frá Nígeríu. Talið er að hann hafi smitast þar áður en hann sneri aftur til Englands.

Nú eru níu staðfest tilfelli apabólu á Bretlandi sem heilbrigðisyfirvöld segja tengjast innanlandssmitum. Ekkert bóluefni gegn apabólu hefur fengið markaðsleyfi í Evrópu en spænsk yfirvöld hafa keypt nokkurt magn bóluefnis við bólusótt. Sjúkdómarnir eru náskyldir.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV