Sameinuðu þjóðirnar greina frá því að sex milljónir hafi yfirgefið landið og hið minnsta jafnmargir séu á vergangi innanlands. Nágrannaríkið Pólland hefur tekið á móti 3,4 milljónum Úkraínumanna og Rúmenía næstum einni milljón.
Rúmlega tvítugur rússneskur hermaður lýsti sig í gær sekan um að hafa myrt almennan borgara í Úkraínu. Réttarhöld hófust yfir manninum í gær en hann er sakaður um að hafa framið stríðsglæpi í landinu. Þetta eru fyrstu réttarhöldin af því tagi eftir að innrásin hófst 24. febrúar.
Enn er setið um Azov-stálverksmiðjuna
Enn hafast ríflega eitt þúsund úkraínskir hermenn við í Azov-stálverksmiðjunni í Mariupol. Þeirra á meðal eru háttsettir foringjar. AFP-fréttaveitan hefur þetta eftir leiðtoga aðskilnaðarsinna hliðhollum Rússum.
Yfirvöld í Moskvu segja rússneskar hersveitir hafa 959 hermenn á sínu valdi en varnarmálaráðuneytið úkraínska lýsti því yfir að einskis yrði látið ófreistað við frelsun hermannanna. Þó viðurkenni ráðuneytið að hernaðaríhlutun sé útilokuð.
Sendiráð opnuð í Kyiv
Bandaríkjamenn opnuðu sendiráð sitt í Kyiv að nýju í dag. Sendiráðinu var lokað eftir innrás Rússa og þar hefur engin starfsemi verið undanfarna þrjá mánuði.
Í yfirlýsingu Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna segir að opnunina megi þakka hve Úkraínumönnum hafi gengið vel að verjast innrásarhernum með fulltingi Bandaríkjanna og fleiri ríkja. Fleiri ríki hafa þegar ákveðið að opna sendiráð sín í Kyiv, þeirra á meðal Danmörk.