Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Þrettán milljónir Úkraínumanna á flótta

epa09953771 A local man cooks food on a fire, near his flat located in a residnetial building which was damaged in a shelling in Kharkiv, Ukraine, 17 May 2022. The man has to use this method of cooking because he does not have access to electricity, gas or water indoors. Russian troops were recently pushed out from Kharkiv's outskirts by the Ukrainian army. The city of Kharkiv, Ukraine's second-largest and the areas near it, has witnessed repeated airstrikes from Russian forces. Russian troops entered Ukraine on 24 February resulting in fighting and destruction in the country and triggering a series of severe economic sanctions on Russia by Western countries.  EPA-EFE/SERGEY KOZLOV
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Alls er talið að þrettán milljónir Úkraínumanna hafi flúið heimili sín frá innrás Rússa í landið 24. febrúar. Samkvæmt því sem fram kemur á tölfræðivefnum Worldometer voru Úkraínumenn ríflega 43 milljónir um miðjan maí.

Sameinuðu þjóðirnar greina frá því að sex milljónir hafi yfirgefið landið og hið minnsta jafnmargir séu á vergangi innanlands. Nágrannaríkið Pólland hefur tekið á móti 3,4 milljónum Úkraínumanna og Rúmenía næstum einni milljón. 

Rúmlega tvítugur rússneskur hermaður lýsti sig í gær sekan um að hafa myrt almennan borgara í Úkraínu. Réttarhöld hófust yfir manninum í gær en hann er sakaður um að hafa framið stríðsglæpi í landinu. Þetta eru fyrstu réttarhöldin af því tagi eftir að innrásin hófst 24. febrúar. 

Enn er setið um Azov-stálverksmiðjuna

Enn hafast ríflega eitt þúsund úkraínskir hermenn við í Azov-stálverksmiðjunni í Mariupol. Þeirra á meðal eru háttsettir foringjar. AFP-fréttaveitan hefur þetta eftir leiðtoga aðskilnaðarsinna hliðhollum Rússum. 

Yfirvöld í Moskvu segja rússneskar hersveitir hafa 959 hermenn á sínu valdi en varnarmálaráðuneytið úkraínska lýsti því yfir að einskis yrði látið ófreistað við frelsun hermannanna. Þó viðurkenni ráðuneytið að hernaðaríhlutun sé útilokuð. 

Sendiráð opnuð í Kyiv

Bandaríkjamenn opnuðu sendiráð sitt í Kyiv að nýju í dag. Sendiráðinu var lokað eftir innrás Rússa og þar hefur engin starfsemi verið undanfarna þrjá mánuði.

Í yfirlýsingu Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna segir að opnunina megi þakka hve Úkraínumönnum hafi gengið vel að verjast innrásarhernum með fulltingi Bandaríkjanna og fleiri ríkja. Fleiri ríki hafa þegar ákveðið að opna sendiráð sín í Kyiv, þeirra á meðal Danmörk.