Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Þetta var algjör geðveiki“

Mynd: RÚV / RÚV

„Þetta var algjör geðveiki“

19.05.2022 - 17:02

Höfundar

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingkona kom heim úr námi til hrunins Íslands og tók heimaland sitt í sátt í búsáhaldabyltingunni. Hún segist hafa farið til útlanda með óbragð í munni eftir erfiða skólagöngu og taldi sig passa illa í íslenskt þjóðfélag fyrirhrunsáranna. Þórhildi var ráðið frá því í grunnskóla að rétta sífellt upp hönd og spá og spyrja, en eins og áhugafólk um íslensk stjórnmál veit, þá lét hún það sem vind um eyru þjóta.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir hefur setið á þingi fyrir Pírata í að verða sex ár. Hún er þekkt fyrir að reyna til hins ítrasta að uppræta það sem hún segir vera óréttlæti, spillingu og sérhagsmuni. Hvort sem landsmenn eru sammála henni eða ekki þá hljóta flestir að sjá að Þórhildur hefur mikla og sterka réttlætiskennd. 

Þórhildur Sunna er gestur Sigurlaugar Margrétar Jónasdóttur í þættinum Okkar á milli í kvöld. 

Þar ræðir Þórhildur meðal annars erfiða skólagöngu sína, sem hún segir að hafi litast af ofbeldi, einelti og útskúfun. Viðmót kennara og stjórnenda í hennar grunnskóla einkenndust síðan einnig af yfirgangi og meðvirkni með gerendum að hennar sögn. 

„Svo fór ég í gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar, þar sem hlutirnir fóru að verða virkilega slæmir,“ segir Þórhildur eftir að hafa rakið annars rysjótta skólagöngu fram að því.

„Þar bara var ég lögð í mikið einelti og varð fyrir töluverðu ofbeldi. Mín upplifun kannski í gegnum þennan tíma er að bæði í Austurbæjarskóla og svo þarna í Mosfellsbæ, að þá er ég alltaf send til einhverra ráðgjafa sem eiga að lækna mig frá ofbeldinu sem er verið að beita mig. Það var aldrei verið að líta á gerendurna í þessu. Ég var vandræðin, ég var ástæðan fyrir því að ég varð fyrir ofbeldi og það var aldrei skoðað hvað væri að hjá krökkunum sem voru að beita mig ofbeldi.“

Ekki dóni

Þórhildur segir þessa reynslu sitja í sér, hvernig henni fannst kerfið snúast gegn sér. Þetta er enda rík ástæða þess að hún rataði inn á þing. Hún segir að þetta erfiða tímabil í hennar lífi, þar sem hún varð að berjast gegn meðvirkni skólastjórnenda með þeim sem mest pönkuðust í henni, hafi gert að verkum að hún berjist nú gegn því sem hún segir að sé landlæg meðvirkni með gerendum í íslensku samfélagi. Hvort sem um er að ræða kynferðisofbeldi, spillingu, frændhygli eða hvers kyns þjónkun með þeim sem misbeita valdi, þá segist Þórhildur Sunna reyna að skera upp herör gegn því. 

Fyrir það er hún þó stundum kölluð dóni. Hún segist alveg geta verið hörð, beinskeytt og stundum brjáluð í skapinu, en að hún líti ekki svo á að hún sé dónaleg ef hún bendir á það sem hún telur vera spillingu eða misbeitingu valds. Það að hún sé kölluð dóni fyrir að benda á spillingu segir Þórhildur að sé einungis meðvirkni með spillingunni.

„Ef þú ert farin að benda á gerendur og þú ert farinn að segja „Það sem þú ert að gera er ofbeldi“ eða „Það sem þú ert að gera er spilling, það sem þú ert að gera er rangt“ þá er alveg stór hluti af þjóðfélaginu sem álítur það dónaskap út af því að það er verið að saka fólk um það sem það er að gera. Og það er óþægilegt, það er óþægilegt að benda á að keisarinn er ekki í neinum fötum.“

Ætlaði að bjarga heiminum

Eftir erfiða grunnskólagöngu lá leið Þórhildar inn á braut félagsvísinda. Hún ætlaði sér að verða mannréttindalögfræðingur til þess að geta bjargað heiminum. Aðspurð segist hún reyndar hafa viljað bjarga konum í Mið-Austurlöndum, en síðan áttað sig á því að það væri kannski ekki raunhæft og eitthvað sem væri á hennar færi að gera. En út í nám vildi hún og fór hún því og lærði lögfræði í Þýskalandi. Þegar hún kom síðan heim, hálfnuð með námið, hafði íslenskt samfélag gjörbreyst. Bankakerfið hafði hrunið og alda reiði, vonbrigða og óvissu skall á íslensku þjóðinni. 

Það var þá sem Þórhildur segist hafa tekið íslenskt samfélag í sátt. Hún segist ekki hafa fundið sig á Íslandi þegar fólk kepptist um að eiga flottustu bílana, stærstu húsin og dýrustu flatskjáina, en hún hins vegar small inn í samfélag þar sem Íslendingar viðruðu efasemdir sínar um stjórnun landsins og stjórnskipan þess. 

„Eftir þessa reynslu hérna á Íslandi þá átti ég mjög erfitt með íslenskt samfélag. Mér fannst við vera svo „materialistic“, efnishyggjan var allsráðandi. Það var bara „Hver á flottasta heita pottinn, hver á fínasta tjaldvagninn og flottasta sumarhúsið?“ Þetta var algjör geðveiki. Hummer-ar hérna út um allt og mér fannst þetta svo klikkað, ég skildi þetta ekki. Og svo gerist þessi samfélagslega bylting og þessi rosalega gróska sem var í stjórnmálum og ég mér fannst ég tengjast landinu mínu einhvern veginn, á hátt sem ég hafði aldrei áður gert.“

Gaman í vinnunni  

Eins og margir stjórnmálamenn segja gjarnan, þá var það alls ekki markmið Þórhildar að fara í pólitík. Hún orðar það reyndar þannig að henni hafi verið „ýtt“ í Pírata á sínum tíma. En síðan er liðinn rúmlega hálfur áratugur og Þórhildur segir að henni finnist gaman í vinnunni, þó það sé stundum erfitt. 

„Ég er að þessu af því ég hef ástríðu fyrir þessu. Mér finnst ótrúlega gaman í vinnunni alla jafna, en það getur stundum alveg alveg verið erfitt, ég viðurkenni það alveg. En oftast nær þá finnst mér bara stórkostlegt að fá að vera þingmaður og ég er bara ótrúlega ánægð með að hafa stokkið á þetta tækifæri þegar mér var boðið það að hafa raunveruleg áhrif á samfélagið.“

Okkar á milli er á dagskrá RÚV í kvöld klukkan 20:05.