
Rúm 6% ungmenna ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun
Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar og byggir á vinnumarkaðsrannsókn hennar. Þar kemur jafnframt fram að hlutfallið sé hærra meðal karla en kvenna.
Tæplega sjö af hundraði karla en 5,6 prósent kvenna lögðu ekki stund á neitt af því sem að framan var greint. Stór hluti sextán til nítján ára hópsins er í námi en 2,7 prósent voru það ekki, né heldur í vinnu eða starfsþjálfun.
Hlutfallið hefur ekki verið lægra frá árinu 2004 innan þess aldurshóps. Árið 2021 voru tæp tíu prósent þeirra sem teljast til innflytjenda á aldrinum 16 til 24 ára ekki í námi, vinnu eða starfsþjálfun. Á síðustu tíu árum var hlutfallið lægst meðal þess hóps 1,1% árið 2016 og hæst 16,5% árið 2012.
Um það bil sex prósent ungmenna með íslenskan bakgrunn voru ekki í námi, vinnu eða starfsþjálfun árið 2021. Þegar á heildina er litið var hlutfall þeirra sem ekki stunduðu slíkt lægst á síðustu tíu árum 4,9% árið 2017 en hæst 7,4% árið 2020.