Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Jansenbólusettir nemar fá Krítarferð ekki endurgreidda

19.05.2022 - 11:51
Mynd með færslu
Það er ekki amalegt að liggja í sólbaði á Krít Mynd: Wikimedia.Commons
Kærunefnd vöru-og þjónustukaupa hefur hafnað kröfu þriggja útskriftarnema sem vildu fá útskriftarferð sína til Krítar að fullu endurgreidda. Nemarnir vísuðu meðal annars til þess að þeir hefðu fengið einn skammt af Jansen-bóluefninu sem íslensk stjórnvöld hefðu síðar talið að teldist ekki fullnægjandi bólusetning.

Útskrifarnemarnir þrír ætluðu að fara til Krítar í ágúst á síðasta ári. Fram kemur í úrskurði kærunefndarinnar að ferðinni hafi verið frestað nokkrum sinnum vegna COVID-19 en síðan verið tekin ákvörðun um að láta slag standa um mánaðamótin júlí-ágúst. 

Þá fóru hins vegar að berast fréttir af mikilli útbreiðslu COVID-19 á Krít. Einn neminn vísaði til þess að þegar nálgaðist brottfarardag hafi annar hópur útskriftanema komið til landsins frá Krít og 30 af 80 nemendum reynst smitaðir. 

Annar benti á að smitaðir ferðamenn hefðu lent í vandræðum á grísku eyjunum. Ef hann hefði smitast hefði hann ekki fengið að fljúga heim heldur þurft að reiða sig á grísk sóttvarnahús og miðað við fréttir hefðu þau flest verið yfirfull.

Þriðji neminn sagði að auk þess hefði komið í ljós að bólusettir einstaklingar hafi getað smitast af Delta-afbrigði kórónuveirunnar og smitað aðra. Krít hafi á þessum tíma verið eldrautt svæði, samkvæmt Sóttvarnastofnun Evrópu.

Allir nemendurnir vísuðu til þess að ein af forsendum ferðarinnar hefði verið sú að þeir hefðu fengið Jansen-bóluefnið og að sú bólusetning hefði átt að veita full vörn gegn COVID-19. Þegar stutt hefði verið í brottför hefðu íslensk stjórnvöld ákveðið að ein sprauta með bóluefninu teldist ekki full bólusetning og að þeir yrðu boðaðir í aðra bólusetningu með öðru bóluefni í ágúst eða eftir Krítar-ferðina.

Í úrskurði kærunefndarinnar kemur fram að ferðaskrifstofan hafi boðið þeim að fá 35 prósent af ferðinni endurgreidda eða 60 prósent í formi inneignar. Nemendurnir völdu að fá 35 prósent en kröfðust þess að fá ferðina að fullu endurgreidda.

Úrskurðir kærunefndarinnar í máli nemanna minna á köflum á síendurtekin varnaðarorð Þórólfs Guðnasonar, fráfarandi sóttvarnalæknis. 

Þannig segir nefndin að fyrir hafi legið í um eitt og hálft ár að Krít væri skilgreind sem áhættusvæði. Alkunna hafi verið að þróun faraldursins hafi verið sveiflukennd frá upphafi og smittíðni farið upp og niður.

Engin vissa hafi heldur verið um virkni og vernd bóluefna þrátt fyrir mikla vonir. „ Þá er eðli faraldra þannig að þeir eru gjarnan óútreiknanlegir, ásamt því að við megi búast að ýmis afbrigði kunni að koma fram með útbreiddum smitum.“ Nemendurnir hafi því mátt vita að aukning gæti orðið á smitum á áfangastað þeirra sem og að aðstæður gætu breyst eftir þróun faraldursins.

Kærunefndin segir sömuleiðis að ferðaskrifstofan hafi haldið nemendunum upplýstum og endurgreitt þeim 35 prósent þrátt fyrir að þeir hefðu afpantað ferðina innan við tveimur vikum fyrir brottför. Það væri umfram það sem kveðið væri á um í samningi.

Var kröfum nemendanna því hafnað.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV