Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Hútar í Jemen íhuga framlengingu vopnahléssamnings

epa09016751 Armed Houthi fighters gather at a mosque in Sana?a, Yemen, 16 February 2021. The US State Department has called on the Houthis in Yemen to halt their offensive on the government-held city of Marib, urging them to cease all military operations, including drone and missile strikes on Saudi Arabia, and to turn to peace talks, after the Houthis intensified their attacks on Saudi Arabia and the central Yemeni province of Marib.  EPA-EFE/YAHYA ARHAB
Liðsmenn Hútífylkingarinnar í Jemen við mosku í höfuðborginni Sanaa í gær. Mynd: EPA-EFE - EPA
Uppreisnarmenn Húta í Jemen íhuga nú hvort þeir séu tilbúnir að framlengja vopnahléssamning þann sem Sameinuðu þjóðirnar komu á við stjórnvöld í landinu. Samningurinn tók gildi í byrjun apríl og var ætlað að gilda í tvo mánuði eða til 2. júní.

Frá því var greint á Saba, fréttastöð Húta, að æðsta stjórnmálaráð þeirra hygðist gaumgæfa beiðni um áframhaldandi vopnahlé. Hans Grundberg, sérlegur sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna í Jemen, kvaðst í gær hafa lagt að stríðandi fylkingum landsins að leggja af ágreining og tryggja vopnahlé áfram.

Grundberg sagði jafnframt að þegar mætti sjá jákvæð áhrif griðasamningsins á hversdagslíf margra Jemena. Hann lýsti þó áhyggjum af tíðindum af vopnaviðskiptum sem hefðu kostað almenna borgara lífið. 

Vopnahléið hófst í byrjun Ramadan, mestu trúarhátíðar múslíma og á mánudaginn var hóf farþegaflugvél sig á loft frá höfuðborginni Sanaa, sú fyrsta um sex ára skeið.

Sameinuðu þjóðirnar álíta að yfir 150 þúsund hafi farist í borgarastyrjöldinni í Jemen og að milljónir hafi neyðst til að flýja heimili sín. Ástandinu þar er lýst sem verstu mannúðarkrísu í veröldinni. Jemen er fátækast Arabaríkjanna og var það áður en borgarastyrjöldin hófst fyrir sjö árum.  

Ríkisstjórn landsins hefur aðsetur í borginni Aden eftir að uppreisnarmenn Húta hröktu hana frá höfuðborginni Sanaa árið 2014. Hútar eru dyggilega studdir af Íransstjórn en fjölþjóðaher undir forystu Sádí-Araba styður stjórnarher landsins.