Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Gerði hlé á kosningabaráttu til að ganga í hjónaband

epa06874108 (FILE) - A file picture dated on 07 April 2018 shows to Brazilian former President Luiz Inacio Lula da Silva during a mass before he entered prison in Sao Bernardo do Campo, Brazil (reissued 08 July 2018). A Brazilian judge has ordered the
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Brasilíski forsetaframbjóðandinn Luiz Inacio Lula da Silva, jafnan kallaður Lula, gerði hlé á kosningabaráttu sinni í gær og gekk að eiga unnustu sína Rosangela da Silva.

Lula þykir sigurstranglegri en Jair Bolsonaro, sitjandi forseti en kosið verður í október. Lula var forseti á árunum 2003 til 2010 og fékk tólf ára fangelsisdóm fyrir spillingu árið 2018 en hæstiréttur Brasilíu ógilti niðurstöðuna á síðasta ári.

Nýbökuð eiginkona Lula er félagsfræðingur að mennt og samflokksmaður hans í Verkamannaflokknum. Athöfnin fór fram í borginni Sao Paulo og var sveipuð dulúð og leynd enda fengu gestir ekki að vita hvar veislan yrði haldin fyrr en daginn áður.

Miklar vangaveltur um mikinn kostnað við veisluna fóru á flug á samfélagsmiðlum sem reyndist vatn á myllu stuðningsmanna Bolsonaros sem enn sakar Lula um að ástunda spillingu.

Lula hefur sagt að samband sitt við hina tuttugu árum yngri Rosangelu sé til marks um að enn sé hann nægilega þróttmikill til að stjórna Brasilíu.

Lula er tvöfaldur ekkjumaður en fyrsta eiginkona hans lést árið 1971 aðeins tveimur árum eftir að þau gengu í hjónaband. Hann var kvæntur Mariu Leticiu í 43 ár en hún lést af völdum hjartaáfalls árið 2017.