Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fjölskyldufaðirinn var handtekinn eftir tálbeituaðgerð

19.05.2022 - 16:34
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Fjölskyldufaðirinn, sem var í dag dæmdur í sex ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn fimm stúlkum á grunnskólaaldri, var handtekinn eftir tálbeituaðgerð í nóvember á síðasta ári. Lögreglan fékk heimild til að taka yfir síma einnar stúlkunnar í málinu og halda áfram samskiptum við manninn í gegnum samskiptamiðilinn Snapchat. Tveimur dögum seinna var hann handtekinn og húsleit gerð á heimili hans í Reykjavík. Hann er grunaður um brot gegn 19 stúlkum til viðbótar.

Þetta kemur fram dómi Héraðsdóms Reykjaness sem birtur var í dag. Dómurinn er mjög langur eða 61 síða.

Í dóminum er meðal annars vitnað til skýrslu lögreglumanns sem vann mikið að rannsókn málsins. 

Hann rakti hversu umfangsmikil rannsóknin hefði verið og hvernig maðurinn hefði verið í stigaleik við stúlkurnar þar sem þær fengu stig ef þær sendu honum kynferðislegar myndir.  Eftir því sem myndirnar urðu grófari því fleiri stig áttu þær að fá.

Maðurinn sagði fyrir dómi að hann hefði séð þennan leik í erlendri útgáfu og til að komast á næsta borð í leiknum hefði þurft að senda honum grófari myndir.

Lögreglumaðurinn sagði manninn hafa beðið margar stúlkur um að hitta sig og að líklega væru 19 stúlkur sem maðurinn væri talin hafa brotið gegn til viðbótar brotaþolunum fimm  í þessu máli. 

Annar lögreglumaður sem gaf skýrslu fyrir dómi sagði lögregluna hafa fundið kennitölur á um 100 stúlkum sem hann hefði verið í sambandi við. Hann sagði manninn hafa verið í kynferðislegum samskiptum við um 240 kvenmenn og þar af hefðu tæplega 110 verið  undir 18 ára aldri. 

Héraðsdómur horfði til þess að maðurinn hefði verið sakfelldur fyrir þrjá nauðganir auk þess sem hann hefði gerst sekur um mörg önnur og sérlega svívirðileg kynferðisbrot. Þau hafi verið til þess fallin að hafa alvarlegar afleiðingar á sálarlíf stúlknanna til hins verra. 

Dómurinn segir manninn hafi engu skeytt um mikilvæga hagsmuni stúlknanna og látið sér í léttu rúmi liggja hvaða afleiðingar brot hans kynnu að hafa á sálarlíf þeirra og heilsu að öðru leyti. „Maðurinn á sér engar málsbætur,“ segir héraðsdómur.